Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag en höfðu þó fram eftir degi dansað við núllið.

Undir lok dags tóku flestir hlutabréfamarkaði dýfu niður á við eftir að Tim Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna kynnti nýja björgunaráætlun yfirvalda.

Reuters fréttastofan greinir frá því og hefur eftir viðmælendum að áætlunin sé óljós og ómarkviss en svipaða sögu er að segja af fréttum og viðmælendum Bloomberg fréttaveitunnar.

„Allar áætlanir sem tengjast þessum svokallað slæma banka þeirra [Bandaríkjamanna] og áætlun þeirra til að bjarga fjármálakerfinu hræðir markaðinn,“ hefur Reuters fréttastofan eftir Manoj Ladwa, forstöðumanni á verðbréfasviði ETX Capital í Lundúnum.

FTSE 300 vísitalan lækkaði um 2,7% í dag en það voru helst bankar, trygginga- og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,2%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 4,3% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 3,5%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 3,6% og í Sviss lækkaði SMI um 0,3%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,1%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 1,8% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,6%.

Lækkun í Bandaríkjunum

Í Bandaríkjunum er svipaða sögu að segja, þ.e. að fjárfestar bregðast illa við áætlun yfirvalda.

Nú þegar markaðir hafa verið opnir í tæpar fjórar klukkustundir hefur Nasdaq vísitalan lækkað um 2,6% en Dow Jones og S&P 500 um 3,6%.

Þar eru það líka bankar, trygginga- og fjármálafyrirtæki sem leiða lækkanir.