Hlutabréfamarkaðir beggja megin Atlantshafsins eru nú rauðglóandi eftir að bandaríski tryggingarisinn AIG (American International Group) tilkynnti í morgun að tap félagsins á fjórða ársfjórðungi síðasta árs hefði numið numið alls 61,7 milljörðum dala sem er stærsta tap hjá bandarísku fyrirtæki á einum ársfjórðungi í sögunni að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Þá byrjuðu hlutabréf í Evrópu að lækka strax við opnun í morgun efir að breski bankinn HSBC tilkynnti um aukna hlutafjárútgáfu fyrir um 12,5 milljarða punda en það mun vera stærsta hlutabréfaútgáfa bresks fyrirtækis frá upphafi.

HSBC tilkynnti á sama tíma að hagnaður bankans lækkaði um 70% á milli ára og nam 5,7 milljörðum punda í fyrra.

FTSE 300 vísitalan lækkaði um 4,9% í dag og hefur nú ekki verið lægri í sex ár. Í síðustu viku náði vísitalan, sem lækkað hefur um 14% á þessu ári, sex ára lágmarki en náði sér aðeins á strik fyrir helgi. Nú hefur hún aftur lækkað og er nálægt því að ná algjöru lágmarki. Vísitalan stendur nú í 683,8 stigum en fór lægst í 681,2 stig í mars 2003.

Að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki annars vegar og orkufyrirtæki hins vegar sem leiddu lækkanir dagsins.

Þannig lækkaði Standard Chartered Bank um 11,6%, Lloyds um 15,3%, BNP Paribas um 9,3%, HSBC um 18,8% og Barclays um 16% svo dæmi séu tekin.

Orkufyrirtækin BP, Shell, BG Group, Tullow Oil, Repsol, Total og StatoilHydro lækkuðu á bilinu 3,6% - 5,8%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 5,3%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 5% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 3,5%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 4,5% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 5,4%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 3,2%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 3,5% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 4,2%.

Sama saga vestanhafs

Í Bandaríkjunum er sömu sögu að segja. Nú þegar markaðir hafa verið opnir í tæpa fjóra tíma vestanhafs hefur Nasdaq vísitalan lækkað um 2,8%, Dow Jones um 3,2% og S&P 500 um 3,5%.

Það eru það einnig fjármálafyrirtæki sem leiða lækkanir auk þess sem Berkshire Hathaway - fjárfestingafélag í eigu Warreen Buffet, ríkasta manns heims - hefur lækkað um 6,3% eftir að hafa gefið út afkomuviðvörun í morgun. Talið er að Berkshire muni í vikunni kynna mesta árstap sitt frá því að Buffett tók yfir félagið árið 1965.