Hlutabréfamarkaðir beggja megin Atlantshafsins eru eldrauðir en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar hafa fjárfestar enn töluverðar áhyggjur af því að bankar og fjármálastofnanir eigi enn eftir að tilkynna um taprekstur og langt sé í land þar til ró kemst á fjármálamarkaði á ný.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, lækkaði um 2,4% og hefur nú lækkað um 8% það sem af er ári.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði HSBC til að mynda um 5,3% eftir að Morgan Stanley mælti með sölu bréfa í bankanum.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,4%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 3,6% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 3,4%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2,9% og í Sviss lækkaði SMI um 2,7%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 2,1%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 4,5% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 3,1%.

Nú þegar markaðir á Wall Street hafa verið opnir í um fjóra tíma hefur Nasdaq vísitalan lækkað um 3,9%, Dow Jones um 3,6% og S&P 500 um 4,3%.