Tyrkneska líran og hlutabréfamarkaðir féllu í gær í kjölfar þess að utanríkisráðherra landsins, Abdullah Gul, staðfesti að hann nyti stuðnings Réttlætis- og þróunarflokksins (AKP) til að bjóða sig aftur fram í embætti forseta. Forsetakosningarnar munu hefjast 20. ágúst næstkomandi og það er í höndum tyrkneska þingsins að kjósa forsetann, en AKP-stjórnarflokkurinn hefur þar mikinn meirihluta - 341 fulltrúa af 550 sem eiga sæti á þingi - eftir stóran kosningasigur flokksins í lok síðasta mánaðar.

Í samtali við fjölmiðlamenn sagðist Gul hafa óskað eftir fundi með leiðtogum pólitískra andstæðinga AKP-flokksins þar sem hann ætlaði að leita eftir stuðningi þeirra við framboð sitt. Stjórnmálaskýrendur segja að það sé gert til að koma í veg fyrir að sú pólitíska spenna sem ríkti á vormánuðum verði endurvakin, en hin veraldlegu stjórnmálaöfl og tyrkneski herinn settu sig þá upp á móti á þeirri ákvörðun Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, að útnefna Gul sem forsetaframbjóðenda AKP-flokksins. Enda þótt pólitískir andstæðingar AKP kunni ívið betur við Gul heldur en Erdogan tortryggðu þeir hann engu að síður sökum þess að þeir deila með sér sömu hugmyndafræði í stjórnmálum - að mati andstæðinga þeirra - um að breyta hinu veraldlega þjóðskipulagi Tyrklands, sem komið var á fót árið 1923.

Í frétt Financial Times er haft eftir Gul að hann hafi átt "gagnlegan og árangursríkan" fund með leiðtoga Þjóðernisflokksins (MHP), Devlet Bacheli. Hann sagði þó ekki hvort MHP-flokkurinn - sem er þriðji stærsti flokkurinn á þingi - hygðist styðja framboð Gul.

Markaðir féllu nokkuð í kjölfar frétta af forsetaframboði Gul en fjárfestar óttast að til átaka muni koma á ný á milli AKP-flokksins og veraldlegra afla í Tyrklandi: Líran veiktist um 2% gagnvart Bandaríkjadal og hlutabréf féllu einnig í verði. Markaðurinn tók þó aðeins við sér þegar líða tók á daginn og við lokun markaða í gær hafði helsta hlutabréfavísitala landsins, ISE National 100, lækkað um 0,8% og tyrkneska líran veikst um tæplega eitt prósent.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.