Hlutabréfamarkaðir beggja megin Atlantshafsins hafa hækkað það sem af er degi en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar binda fjárfesta vonir við að björgunaráætlun bandarískra yfirvalda verði samþykkt von bráðar, líkast til í dag eða á morgun.

Nú þegar markaðir hafa verið opnir í um klukkustund á Wall Street hefur Nasdaq vísitalan hækkað um 2,6%, Dow Jones um 2,2% og S&P 500 um 3,1%.

Í Evrópu er sömu sögu að segja. Að vísu lækkuðu flestir evrópskir markaðir í morgun en hafa nú tekið viðsnúning og skríða flestir rétt fyrir núllið.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan hækkað um 1%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 1,9%, í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 0,3% og í Sviss hefur SMI vísitalan hækkað um 2% það sem af er degi.

Í Frankfurt hefur DAX vísitalan hins vegar lækkað um 0,7%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan að vísu lækkað um 1,2% en í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan hækkað um 0,5% og í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 3,9% sem er mesta hækkunin í Evrópu í dag.