Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag, annan daginn í röð, eftir að hafa þó lækkað um miðjan dag.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 1,2% í dag, en Dow Jones og S&P 500 um 0,8% en S&P 500 hefur engu að síður lækkað um 4,2% í vikunni.

Allir markaðir hækkuðu við opnun í morgun þegar ljóst var að bandarísk yfirvöld hefðu ákveðið að bjarga stærsta banka landsins, Bank of America með neyðarláni, síðan lækkuðu markaðir um miðjan dag eftir að Citigroup tilkynnti enn eitt tapuppgjör sitt sem þýðir að árið 2008 er versta ár í sögu bankans en það sem vakti athygli greiningaraðila var að bankinn er nú búinn að afskrifa 92 milljarða Bandaríkjadali á síðustu 12 mánuðum.

Bank of America lækkaði um 15% í dag og Citigroup lækkaði um 3,7%. Þá lækkaði Wells Fargo, næst stærsti banki Bandaríkjanna um 9,1%.

Undir lok dags hækkuðu markaðir á ný en að sögn Bloomberg telja fjárfestar að björgun Bank of America séu jákvæðar fréttir fyrir markaðinnn auk þess sem tölvuframleiðandinn Intel hækkaði um 5% eftir að félagið gaf út jákvæða afkomuspá fyrir fyrsta ársfjórðung.

Í spá Intel kom fram að dregið hefur verið úr framleiðslu félagsins og er unnið að því að „selja lagerinn“ ef svo má að orði komast sem þýðir þó að nettó tekjur félagsins verða mun jákvæðari en áður hafði verið gert ráð fyrir, eða um 7 milljarðar dala.

Hráolíuverð hækkaði um 1,43% í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 36,04 dali.