Markaðir hækkuðu í Bandaríkjunum annan daginn í röð. Nasdaq hækkaði um 3,18%, Dow Jones um 2,55% og Standard & Poor's um 2,86%. Nasdaq vísitalan er nú 2662,91 stig. Standard & Poor's vísitalan hefur hækkað samtals um 4,4% síðustu tvo daga og hefur það ekki gerst frá árinu 2002.

Þó bárust neikvæðar fréttir frá Wells Fargo bankanum sem gaf nýlega út afkomuviðvörun og tilkynnti í morgun að tap bankana á fjórða ársfjórðungi yrði um 1,4 milljarður bandaríkjadala og kæmi til vegna húsnæðisútlána bankans að undanförnu. Þetta hafði þó engin áhrif á markaðinn enda viðbúið.

Aðrir bankar hækkuðu töluvert í dag. Citigroup, Lehman brothers, Morgan Stanlye og Goldman Sachs hækkuðu allir yfir 5% og leiddu hækkun dagsins.

Bæði EBay Inc. og Amazon.com Inc. hækkuðu töluvert eftir að spáð var um góða afkomu á fjórða ársfjórðungi. Bæði fyrirtækin eru skráð á Nasdaq og áttu því töluverðan hlut í hækkun þar á bæ. Forstjóri Amazon.com sagði í dag að ekki mætti gleyma netsölum þegar væntingar væru gerðar til neysluvísitölu og að hefðbundin jólainnkaup væru að breytast. Almenningur væri farinn að versla meira á netinu og færi því minna í búðir. Eins og greint hefur verið frá var mikil sala í verslunum síðastliðin föstudag þegar jólainnkaupin hófust formlega í Bandaríkjunum en voru síðan aftur á móti óvenjulega lág í byrjun þessa viku.

WSJ greindi einnig frá því í morgun að orðrómur væri í gangi um mögulegan samruna Citigroup og Bank of America.Talsmenn beggja fyrirtækja neituðu því að viðræður væru í gangi en þrátt fyrir það tóku hlutabréfin í bönkunum vel við sér.

Aðstoðarseðlabankastjóri Bandaríkjanna, Donald Kohn sagði í ræðu í dag að vissulega hefði fjármálamarkaðurinn átt í erfiðleikum síðustu vikur og það væri sjálfsagt að grípa inn í. Orð hans voru túlkuð þannig að von sé á lækkun stýrivaxta en sú ákvörðun verður tekin þegar bankaráð bandaríska seðlabankans hittist næst þann 11.desember n.k. Hann sagði einnig að mesta niðursveiflan væri líklega að baki en bað menn um að fara varlega.

Olíuverð fór nálægt 100 bandaríkjadölum um miðjan nóvember en hefur lækkað aftur. Við lokun markaða í dag var tunnan komin niður í 90,62 bandaríkjadali og hefur ekki verið jafnlág frá því í lok október.

Fjárfestingafélögin Freddie Mac og Fannie Mae hækkuðu bæði töluvert í dag. Fyrirtækin eru þekkt fyrir að fjármagna húsnæðislán til annara fjármálastofnana og hafa lækkað að undanförnu. Freddie Mac hækkaði um 14% í dag og Fannie mae um 9,9%.

Bank of America ráðlagði hluthöfum í stórblaðinu New York Times að selja hluti sína en talið er að auglýsingatekjur blaðsins mun ekki vera eftir væntingum á næsta ári. Við þetta lækkuðu hlutabréf í blaðinu um 12 cent niður í 16,71 bandaríkjadali.