Hlutabréf á mörkuðum vestanhafs hækkuðu í dag, þá einkum og sér í lagi vegna nokkurra hækkana á orkufyrirtækjum.  Standard & Poors hækkaði um 0,4% eftir að hafa lækkað um 0,8% innan dags.

Nasdaq-vísitalan hækkaði um 0,2% og Dow Jones-vísitalan um 0,4%, og var mesta hækkunin í Dow Jones-vísitölunni á bréfum General Motors eða um 6.4%. Fyrir hver þrjú hlutabréf sem lækkuðu í kauphöllinni í New York hækkuðu fjögur, að því er kemur fram hjá Bloomberg.

Olíufyrirtækin Exxon Mobile og ConocoPhillips leiddu hækkanir dagsins og hækkuðu bréf þeirra félaga í verði þriðja daginn í röð. Hækkanir orkufyrirtækja vógu þyngra í dag en lækkanir á fjármálafyrirtækjum, en bréf tryggingafélagsins AIG lentu í mestu lækkun síðustu 20 ára eftir að forsvarsmenn fyrirtæksins tilkynntu um meiri afskriftir á skiptasamningum en áður var talið.

Olíuverð hækkar í kjölfar orkuskorts

Olíuverð náði hámarki sínu séð miðað við undanfarinn mánuð og stendur í 93,74 dollurum á tunnu. Eftir að Valero Energy Corp. tilkynnti um lokun olíuleitarsvæðis í Delaware vegna orkuskorts í gær hækkaðu framvirkir samningar á olíutunnunni samstundis um 2,2%.

Eftir að staðfesting barst þess efnis að Yahoo myndi hafna yfirtökutilboði Microsoft hækkuðu bréf fyrirtækja í tæknigeiranum. Yahoo hækkaði um 1,8%, en Microsoft lækkaði hins vegar lítillega. Farsímafyrirtæki á borð við Motorola hækkuðu eftir að tilkynnt var um mögulegt samstarf við Nortel um sameiginlega nýtingu þráðlausrar tækni fyrir farsíma.