Hlutabréfamarkaðurinn vestanhafs tók við sér í dag eftir afar slæma byrjun á árinu. Á síðustu 20 mínútunum fyrir lokun markaða hækkaði Dow Jones vísitalan um 0,9%, og að sama skapi hækkuðu Nasdaq 100 og S&P500 vísitölurnar um prósentustig yfir daginn. Svo virðist sem bandarískir fjárfestar hafi ákveðið að setja áhyggjur af efnahagshorfum til hliðar og gripið kauptækifæri sem kunnu að hafa myndast.

Misjöfn skilaboð bárust fjárfestum í dag. Goldman Sachs sendi frá sér neikvæða spá um efnahagshorfur í Bandaríkjunum, en á móti kom að Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffet, tilkynnti að það hyggði á fjárfestingar í skuldabréfatryggingum, eftir að hafa komið upp eigin starfsemi á þeim vettvangi. Berkshire lækkaði engu að síður í gær um 2,2%.

Fjármálafyrirtæki leiddu hækkunina í dag. Þau félög sem hækkuðu mest voru Bear Sterns - sem tilkynnti einna fyrst allra um vanskil á undirmálslánum, auk Merrill Lynch og Morgan Stanley. Lyfjafyrirtæki hækkuðu að sama skapi í kjölfar umfjöllunar frá Goldman Sachs um jákvæðar horfur á þeim markaði.

Olíuverð lækkaði lítillega í 95,65 dollara á tunnuna, og gullverð hækkaði í 881,7 dollara á únsuna, sem er nálægt hæsta verði sem fengist hefur fyrir góðmálminn.