Nú þegar hlutabréfamarkaðir hafa verið opnir í rétt rúma klukkustund í Evrópu hefur FTSEurofirst 300 vísitalan hækkað um 4,1% en þetta er þá annar dagurinn í röð sem hlutabréf hækka í Evrópu.

Að sögn Reuters má rekja hækkun dagsins annars vegar til mikilla hækkana á Bandaríkjamarkaði í gær auk þess sem búist er við stýrivaxtalækkun í Bandaríkjunum en dag en Reuters segja fjárfesta vonast eftir stýrivaxtalækkun til að hægt verði að liðka enn frekar til á mörkuðum.

Það eru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða hækkanir dagsins. Þannig hefur UBS hækkað um rúm 10%, Royal Bank of Scotland um 20%, Barclays um 12% og Deutche Bank um 8% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vístalan hækkað um 5,4%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 6,1% en í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 1,8%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 6,5% og í Sviss hefur SMI vísitalan hækkað um 3,9%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 5,4%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan hækkað um 4,8% og í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 4,6%.