Hlutabréf hækkuðu lítillega í Bandaríkjunum í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má rekja hækkun dagsins vonar fjárfesta um að björgunarpakki bandarísku ríkisstjórnarinnar muni blása lífi í markaði.

Markaðir lokuðu kl. 13 að staðartíma í New York í dag eins og venja er á föstudegi eftir þakkargjörðarhátíðina sem var í gær.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 0,2% og Dow Jones hækkaði um 1,2%.

S&P 500 vísitalan hækkaði um 1% í dag og hefur þannig hækkað um 12% í þessari viku sem er mesta hækkun vísitölunnar á einni viku frá því árið 1974. Vísitalan hefur engu að síður lækkað um 7,5% í nóvember og um 43% frá því í október í fyrra.

Búist við dræmri jólasölu en framtíðin sögð björt

Jólaverslunin hófst formlega í dag og þrátt fyrir að kaupmenn búist við dræmiri jólavertíð segja viðmælendur Bloomberg að til langs tíma sé bjart framundan.

Bankar og fjármálafyrirtæki hækkuðu nokkuð í dag. Til að mynda hækkaði Citigroup, sem í síðustu viku fékk rúmlega 300 milljarða fyrirgreiðslu af hendi yfirvalda í formi ríkisábyrgðar, um 18% og hefur þannig hækkað alla þessa viku.

Bílaframleiðendurnir General Motors og Ford hækkuðu um 9% og 25% en bæði félögin sendu frá sér tilkynningu í dag þar sem umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir voru boðaðar. Þær verða kynntar fyrir jól.

Smásölukeðjur lækkuðu í dag en eins og fyrr segir er búist við dræmri jólasölu í ár, þeirri verstu í sjö ár að því er Bloomberg greinir frá. Þannig lækkuðu Target um 4%, Wal Mart um 5% og Costco um 5,4% svo dæmi séu tekin.