Það segir meira en mörg  orð um markaðsaðstæður  að það heyri til tíðinda  takist fyrirtækjum að  sækja sér fé með útgáfu  skuldabréfa. Breska blaðið  Financial Times gerði  það að umfjöllunarefni  á dögunum að nokkrum  fyrirtækjum hefði tekist  að gefa út skuldabréf  sem eru verðlögð með  gamla hættinum: Það er  að verðlagningin studdist  við þær upplýsingar sem  er að finna á eftirmarkaði.    Ástæða þess að þetta þykir heyra  til tíðinda er sú að í rúmt ár hafa  fyrirtæki kosið að miða verðlagningu  á skuldabréfum við skuldatryggingaálag  í stað þess að miða  við verð á eftirmarkaði. Þessi þróun  er rakin til þess að mun meiri  viðskipti eru með skuldatryggingarálag  en skuldabréf á eftirmarkaði  og því töldu fjárfestar  að það gæfi betri mynd af undirliggjandi  áhættu og væri þar með  besta viðmiðið varðandi verðlagningu  í tengslum við útgáfu nýrra  skuldabréfa. Nú þegar fjármálabólan  sem myndaðist vegna auðvelds  aðgengis að ódýru lánsfé er  sprungin er komið annað hljóð í  strokkinn. Eins og fram kemur  í umfjöllun Financial Times þá  hafa bankar og fjármálastofnanir  tekið að vinda ofan af stöðum sínum  í skuldabréfavafningum sem  innihalda eitruð veð og gera það  með því að kaupa skuldatryggingar  í miklum mæli. Margir sérfræðingar  vilja meina að þetta sé helsta  ástæða þess að nánast engin tengsl  virðast vera á milli verðlagningar  skuldatrygginga um þessar mundir  og undirliggjandi áhættu þeirra  fyrirtækja sem þær tengjast. Hið háa skuldatryggingaálag er einn  af þeim þáttum sem hafa gert það  að verkum að lánsfjármarkaðir  hafa nánast lokast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .