Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum enduðu á svipuðu stigi í dag og í gær eftir að hafa fallið mikið framan af degi. Þannig hafði Dow Jones Industrial Average til dæmis lækkað um yfir 200 punkta en endaði með 7 punkta lækkun, eða 0,1%. Nasdaq og S&P hækkuðu hins vegar lítillega.

MarketWatch segir að hlutabréf hafi hækkað í verði eftir fréttir um að stjórn Obama kunni að niðurgreiða beint afborganir af húsnæðislánum almennings. Markaðurinn hafi hins vegar verið undir þrýstingi vegna óvissu og vegna þess að björgunarpakki fyrir bankana og örvandi efnahagsaðgerðir fyrir atvinnulífið séu ekki komnar að fullu fram.