Hlutabréfamarkaðir hafa hækkað í Evrópu í morgun eftir að hafa lækkað fimm daga í röð.

Að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja hækkanirnar til hækkana í Asíu í morgun auk þess sem olíu- og orkufyrirtæki hafa hækkað nokkuð.

Þannig hefur BP til að mynda hækkað um 6,3% eftir að félagið tilkynnti í morgun um aukna sölu á þriðja ársfjórðungi en sala félagsins á olíu jókst um tæp 150%. Þá hefur Total hækkað um 4% og Shell um 3%.

Nú þegar markaðir hafa verið opnir í tæpa klukkustund hefur FTSEurofirst 300 vísitalan hækkað um 2,7%. Vísitalan hefur engu að síður lækkað um 23% í þessum mánuði.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vístalan hækkað um 1,9%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 0,5% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 6,2%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 1,1% og í Sviss hefur SMI vísitalan hækkað um 0,7%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 2,5%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan hækkað um 1,8% og í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 3,1%.