Markaðir lækkuðu aftur í Bandaríkjunum í dag. Nasdaq lækkaði um 1,33% og stendur vísitalan nú í 2562.15 stigum. Dow Jones lækkaði um 1,62% og Standard & Poor's lækkaði um 1,59%.

Mikil viðskipti voru á mörkðum í dag, mikil sala á hlutabréfum en aftur á móti mikil kaup á skuldarbréfum að sögn WSJ. Ríkisskuldabréf sem gefin eru út til tíu ára lækkuðu einnig um 4% í dag og hafði það nokkur áhrif á markaðinn.

Öll hækkun Standard & Poor's 500 vísitölunnar á þessu ári er nú gengin til baka að mestu. Fjármálafyrirtækin í Standard & Poor's vísitölunni lækkuðu um 2,2% í dag og hafa nú lækkað sex daga í röð.

American Express lækkaði töluvert í dag, eða um 4,7%, eftir að Morgan Stanley gaf út ráðleggingar til fjárfesta um að selja í fyrirtækinu. American Express er þriðja stærsta greiðslukortafyrirtækið í Bandaríkjunum. Exxon Mobil, stærsta olíufélagið, lækkaði einnig í dag eða um 3,2%.

Næstkomandi föstudag er svokallaður Svarti föstudagar (e. Black Friday) sem er föstudagur eftir þakkargjörðarhátíð Bandaríkjamanna. Bloomberg.com greinir frá því að í fimm ár hefur aldrei orðið jafn mikil lækkun á neytendavísitölum þessa viku en venjulega ríkir mikil spenna þessa þrjá daga fyrir þakkargjörðarhátíðina. Svarta föstudag byrjar hátíðarinnkaupin formlega og er venjan sú að neytendavísitölur rjúki upp í framhaldi af því.

Því vekur það athygli að fyrirtæki eins og Circuit City hafi lækkað um 5,6% í dag en fyrirtækið er einn stærsti seljandi raftækja í Bandaríkjunum. JC Penny, Starbucks og FedEx hafa öll tilkynnt um minni hagnað en vonast var eftir en öll þessi fyrirtæki vega stórt þegar neytendavísitalan er reiknuð út.

Olían nærri 100 dölum

Olíuverð hækkaði enn í dag. Við lok markaða var olíutunnan á 99,29 bandaríkjadali. Á meðan dollarinn veikist enn gagnvart evrunni heldur umræðan um það áfram hvort olíuverð verði áfram metið í dollurum eður ei. Athyglisvert verður að fylgjast með þeirri umræðu næstu daga.

Að lokum má nefna að markaðir verða lokaðir í Bandaríkjunum á morgun vegna þakkargjörðarhátíðarinnar.