Markaðir héldu áfram að lækka í Bandaríkjunum í dag. Nasdaq lækkaði í dag um 2,32%, Dow Jones um 1,29% og S&P um 1,50%.

Markaðir hafa ekki lækkað jafn mikið á tveimur dögum (s.l. föstudag og í dag) í meira en mánuð. Bloomberg.com greinir frá því að öll teikn séu á lofti um að bandarískt efnahagslíf sé að hægja á sér. Í gær birtist sjónvarpsviðtal við Alan Greenspan,fyrrverandi bankastjóra bandaríska seðlabankans og þar sagði hann helmingslíkur á því að kreppa væri í nánd. WSJ segir að þessi orð Greenspan hafi greinilega setið í fjárfestum í dag.

Olíuverð lækkaði í dag um 0,7% og í lok dags kostaði olíutunnan 90,63 bandaríkjadali. Exxon olíufyrirtækið var á meðal þeirra olíufyrirtækja sem lækkuðu í dag. Kopar, silfur og gull var einni á niðurleið í dag. Freeport-McMoRan koparfyrirtækið lækkaði um tæplega 7% í kjölfarið.

Eins og VB.is greindi frá í gær hefur jólaverslun farið hægt af stað og langt frá því að vera sambærileg frá fyrra ári. Þá er internet sala einnig töluvert undir væntingum. Bæði EBay og Amazon héldu áfram að lækka í dag en Amazon lækkaði um 4,5%.