Markaðir lækkuðu í dag í Bandaríkjunum, annan daginn í röð. Nasdaq lækkaði um 0,66%, Dow Jones um 0,49% og Standard & Poor's lækkaði um 0,65%.

Aftur voru það fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkun dagsins. JPMorgan Chase tilkynnti í dag að skuldabréfamarkaðir myndu vera undir meðallagi á næstunni. Eins tilkynntu sérfræðingar bankans að fjórir bankar, Goldman Sachs Group, Morgan Stanley, Merrill Lynch og Lehman Brothers myndu allir þurfa á næstunni að afskrifa meira fé en þegar hefur verið gert. Við þetta féllu hlutabréf í fyrrnefndum bönkum töluvert. Frá þessu greindi Bloomberg.com. Nú þegar hafa um 60 milljarðar bandaríkjadala verið afskrifaðir hjá hinum ýmsu fjármálafyrirtækjum.

Exxon Mobil og Chevron lækkuðu einnig í dag en olíuverð hefur farið lækkandi síðustu daga. Í lok dagsins kostaði olíutunnan 88,32 bandaríkjadali og hafði lækkað um 99 cent í dag.