Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum enduðu grænir í dag eftir nokkuð stormasaman dag. Endurfjármögnunaráætlanir skuldatryggingafélagsins Ambac reyndust undir væntingum fjárfesta, og Seðlabanki Bandaríkjanna sendi frá sér neikvæðar fregnir um bandarískt efnahagslíf. Verð á hráolíu sló öll met og endaði í 104 dollurum á tunnu. CNN segir frá þessu.

Standard & Poor's og Nasdaq vísitölurnar hækkuðu báðar um hálft prósentustig og Dow Jones hækkaði um 0,3%.

Fjárfestum vestanhafs höfðu borist jákvæðar fréttir um þjónustugeirann og því fóru markaðir vel af stað. Skuldatryggjandinn Ambac tilkynnti síðan um hlutafjárútboð fyrir 1,5 milljarð dala, en fjárfestar höfðu búist við betri lausn á vandamálum fyrirtækisins. Bréf fyrirtæksins lækkuðu mest um 19% í dag.

Fregnirnar af Ambac drógu niður markaðinn, og þá helst fjármálafyrirtæki. En í eftirmiðdegið skreið markaðurinn upp á við aftur.

Bréf í húsnæðislánafyrirtækinu Fannie Mae lækkuðu um 4% þrátt fyrir að Morgan Stanley breytti fjárfestingaráðgjöf sinni til hins betra.