Hlutabréf eru að lækka nánast út um allan heim í dag. Í Asíu lækkuðu hlutabréf í dag og það sem af er degi hafa hlutabréf lækkað í Evrópu, á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum.

Í Evrópu hefur FTSEurofirst 300 vísitalan lækkað 1,4% það sem af er degi og segir Reuters fréttastofan að bankar og fjármálafyrirtæki leiði lækkanir á evrópskum mörkuðum.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 1%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan lækkað um 1,3% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 1,5%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 1,2% og í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 1%, í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 0,5% og í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 2% sem er mesta lækkunin í Evrópu, annan daginn í röð.

Bandaríkin

Í Bandaríkjunum hafa markaðir verið opnir í rúmlega klukkustund en þar hefur Nasdaq lækkað um 1% á meðan Dow Jones og S&P 500 hafa lækkað um 0,7%.

Bloomberg fréttaveitan greinir frá því að nýjar tölur af húsnæðisverði hafi haft neikvæð áhrif á markaðinn og hefur eftir viðmælanda sínum að nú sé engin spurning um að verulegur samdráttur sé framundan vestanhafs.

Þá gaf flutningsfyrirtækið UPS út afkomuviðvörun fyrir opnun markaða en félagið sagði að hækkandi eldsneytisverð auk minni eftirspurnar af vöruflutningi myndu koma illa við félagið á öðrum ársfjórðungi þessa árs.