Markaðsáhætta FL Group hefur verið minnkuð um 130 milljarða króna, að því er fram kom í máli Jóns Sigurðssonar, forstjóra FL Group, á aðalfundi félagsins á þriðjudag. Hann telur að það hafi sparað fjárfestingafélaginu um 40 milljarða króna á árinu. Forsendur fyrir þessum fjárfestingum, sagði hann, sem fjárfestingafélagið hefur selt með tapi, hafa breyst mjög mikið, í kjölfar erfiðra aðstæðna á fjármálamörkuðum.

Tap FL Group af þremur stöðum á hlutabréfamarkaði: AMR, Commerzbank og Finnair var um 38 milljarðar króna á síðasta ári en heildartap félagsins nam 67,3 milljörðum króna, upplýsti Jón og sagði að vaxtagjöld og gengismunur hefði verið neikvæð um 35 milljarða króna. „Þetta er í raun og veru uppistaðan af tapi ársins.“

Fjárfestingafélagið hefur selt hlut sinn í AMR, Commerzbank staðan er komin undir 1% og tilheyrir nú veltubók félagsins, því mun FL Group ekki tilkynna nánar hvað verður um þau bréf, aukinheldur seldi það í lok síðasta árs um helming stöðu sinnar í Finnair sem eftir söluna nemur 12,7%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .