Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að markaðsaðilar lesi oft miklu meira í yfirlýsingar bankans en hann er að segja.

Í spurningu Jóns Bjarka Bentssonar, hagfræðings hjá greiningu Íslandsbanka, á stýrivaxtafundi í dag kom fram að höftin hafi mikil áhrif á skuldabréfamarkaðinn og áætlanir um hvenær þeim verður aflétt. Hann sagði að misbrestur hafi verið á upplýsingagjöf tengdri ákvörðunarferli um afnám gjaldeyrishafta. „Skilaboð hafa einnig verið misvísandi.  Í ágúst var sagt að alllangt væri í afnám hafta en í september var komið annað hljóð í strokkinn,“ sagði Jón Bjarki. Þetta hafi valdið usla á skuldabréfamarkaði. Hann spurði hvort ekki væri réttast að ákvörðunarferli um framgang gjaldeyrishafta yrði sett í sambærilegt ferli og stýrivaxtaferlið.

Már sagði að ákvörðunarferlið þurfi að vera í sambærilegu ferli en það geti þó ekki verið nákvæmlega eins. Gjaldeyrishöftin séu ekki sama eðlis. Már flutti yfirlýsingu í dag um gjaldeyrishöftin þar sem hann taldi upp átta atriði þeim tengdum. Sagði hann að þau hafi öll nema eitt legið fyrir áður en nú ætti öllum að vera ljóst hvert ferlið er.

Gagnrýndur fyrir ræður á lokuðum fundum

Seðlabankinn hefur verið gagnrýndur fyrir að gefa upplýsingar á lokuðum fundum og að ræðurnar hafi ekki ratað inn á heimasíðu bankans. Már sagði að aldrei hafi verið veittar upplýsingar í ræðum sem ekki hafa komið fram áður. „Alltaf þegar upplýsingar koma fram um breytingar á áætlun stjórnvalda á að kynna þær öllum á sama tíma. Við teljum okkur hafa verið að gera það. Það er greinilegt að oft er verið að lesa miklu meira í okkar yfirlýsingum en við erum að segja,“ sagði Már.

Már sagði ennfremur að bankinn muni leitast við að ræður verði birtar á vefsíðunni. „Yfirleitt hefur verið reynt að gera það. Það hefur orðið misbrestur á tveimur ræðum hjá mér en það var vegna þess að ekki var talið að nýjar upplýsingar væru á leiðinni. Við vildum að ræður sem hafa birst áður endurspegluðu það sem sem sagt var.“

Hann sagði að bankinn muni birta allt sem getur talist sem stefnuboðskapur eða allt sem megi túlka sem slíkan boðskap.

Misskilningur kom upp í ágúst

„Okkur sýnist að stóri misskilningur hjá markaðnum hafi komið upp í ágúst, og við getum kennt okkur um það. Markaðurinn taldi að verið væri að seinka afnámi hafta um ár en það hefði verið í trássi við þá stefnu sem búið að vera gefa út,“ sagði Már. Miklar verðsveiflur voru á skuldabréfamarkaði eftir stýrivaxtafund Seðlabankans í september en yfirlýsingar hans þá þóttu ekki ríma við yfirlýsingar hans í ágúst. Eftir yfirlýsingar bankans í september töldu markaðsaðilar að styttra væri í afnám hafta en áður var talið.