Allt að því 100 milljónum króna verður varið í átak til að markaðssetja Íslands erlendis sem fýsilegan áfangastað ferðamanna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá iðnaðarráðurneytinu.

Átakið er samstarfsverkefni ráðuneytisins og fyrirtækja sem selja ferðaþjónustu, en Ferðamálastofa hefur forystu um verkefnið.

Samdráttur er fyrirsjáanlegur í ferðaiðnaðinum. Því hafa yfirvöld brugðist við með því að veita fé í atvinnugreinina, að því er kemur fram í tilkynningu.

Þeir fjármunir sem fara í átakið verða aðallega notaðir í auglýsingaherferðir á helstu vetrarmörkuðum ferðaþjónustunnar. Ekki er um styrki að ræða til einstakra aðila, heldur almennar auglýsingaherferðir.