Fjarskiptamarkaðurinn á Íslandi hefur tekið miklum breytingum á undanförnum tveimur árum. Ný fyrirtæki hafa tekið viðskiptavini frá þeim gömlu og móðurfélög þriggja af fjórum stærstu fyrirtækjanna á fjarskiptamarkaði hafa fengið nýja eigendur.

Frá miðju ári 2009 hafa orðið miklar sviptingar á fjarskiptamarkaði. Móðurfélög þriggja af fjórum stærstu fjarskiptafyrirtækjum landsins hafa skipt um eigendur og farið í gegnum einhvers konar fjárhagslega endurskipulagningu. Eina stóra fyrirtækið á markaðinum sem er enn í eigu sama aðila og það var fyrir bankahrun er Nova.

Af ársreikningum fyrirtækja sem starfa á fjarskiptamarkaði má glöggt sjá að það var lenska að skuldsetja slík fyrirtæki upp í rjáfur á uppgangstímum. Slík fyrirtæki henta enda vel til skuldsetningar þar sem þau geta bókfært háar framtíðartekjur sem óefnislegar eignir sem síðan er hægt að nota sem veð fyrir frekari lánum. Þegar íslenskt viðskiptalíf fór á hliðina í október 2008 bitnaði það þó mjög hart á fyrirtækjum sem höfðu farið þessa leið.

Það hefur átt sér stað eðlisbreyting á markaðinum með stórsókn Nova inn á hann. Á þeim skamma tíma sem félagið hefur starfað hefur það náð til sín um 55 þúsund viðskiptavinum. Á sama tíma hafa myndast skörð í viðskiptavinahópa Símans og Vodafone sem hafa tapað tugþúsundum viðskiptavina á síðustu tveimur árum. Þetta kemur fram í nýjustu tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .