Greiningardeild Íslandsbanka telur að hlutdeild Símans á fjarskiptamarkaði hafi minnkað á liðnu ári um 1%. Í Morgunkorni greiningardeildarinnar kemur fram að hlutdeild Símans sé 76% á móti 24% hlutdeild OgVodafone.

Þá segir í Morgunkorninu: "Vöxtur fjarskiptamarkaðarins var 6,8% í fyrra og var vöxtur Símans um 5,5% en OgVodafone um 10%. Markaðshlutdeild Og Vodafone jókst minna á milli ára en við spáðum en í nýlegu verðmati á OgVodafone var markaðshlutdeild félagsins 2004 áætluð 26,4%. Minni vöxtur í markaðshlutdeild kallar ekki á endurskoðun á áætlun um að hlutdeild félagsins á fjarskiptamarkaðinum hækki í 33% á næstu sex árum.

Einungis er hægt að áætla skiptingu fjarskiptamarkaðarins á milli Símans og Og Vodafone þar sem að Síminn birtir ekki sundurliðaðar upplýsingar á milli fjarskiptahlutans og því sem Íslenskt sjónvarp ehf (Skjár einn) er að skila. Þar sem Íslenskt sjónvarp kemur inn í uppgjör Símans á fjórða ársfjórðungi þarf að áætla tekjur af sjónvarpsrekstrinum á fjórðungnum. Tekjur Íslensk sjónvarps voru um 600 m.kr. árið 2003 en reikna má með að tekjur félagsins hafi aukist á árinu 2004 vegna enska boltans. Að gefinni þeirri forsendu að tekjur félagsins hafi aukist um 20% má áætla að tekjur Símans vegna Íslensks sjónvarps ehf. hafi verið um 180 m.kr. Til að reikna út vöxt fjarskiptamarkaðarins er sú tala dregin frá sem og einnig söluhagnaður vegna sölu rekstrarfjármuna sem var nokkur hjá Símanum árið 2003 og OgVodafone árið 2004."