Eignahlutur Landsbankans í sjálfum sér jókst úr undir 200 milljónum hluta (1,8% hlutur í bankanum) í júlí 2007 í yfir 500 milljónir hluta (tæplega 4% hlutur í bankanum) við upphaf október 2008.

Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Þar segir að munstur bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, sé áþekkt þegar litið er til eignarhluts veltubóka (EVL) í hlutabréfum í eigin banka.

Um Landsbankann er sagt að af af auknum hlutabréfakaupum í eigin bréfum megi sjá að á stórum hluta tímabilsins hafi bankinn keypt kerfiðsbundið hlutabréf með því að eiga viðskipti í tilboðabók Landsbankans í Kauphöllinni. Síðan hafi hann samið um sölu á bréfunum utan Kauphallarinnar og tilkynnt viðskiptin að því loknu. Þetta hafi sést best í lok tímabilsins, það er rétt fyrir fall bankans.

„Þessir starfshættir virðast vera af sama toga og hjá Kaupþingi og Glitni en þó hugsanlega hefjast eitthvað síðar. Um kaup EVL (veltubókar Landsbankans) sagði Ívar Guðjónsson, forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, að pressa hefði myndast þegar framboð á hlutabréfum Landsbankans fór að aukast á markaði um að EVL keyptu meira af bréfum.Sú pressa hefði t.a.m. komið frá miðlun Landsbankans.

Ívar sagði jafnframt „[...] miðlunin var að hringja, hvað er að ykkur, djöfulsins aumingjaskapur, Kaupþing er alltaf að,… þeir gleypa endalaust og ... þeir eru alltaf með kaupendur, það eru alltaf að eiga sér stað viðskipti með þeirra stock ... okkar er bara með of lítið magn af viðskiptum.“

Þarna hefur miðlun Landsbankans vísað til þess að deild eigin viðskipta Kaupþings hefði verið mjög virkur kaupandi í tilboðabók Kaupþings og viljað að EVL færu að fordæmi hennar. Að sögn Ívars var ekki orðið við þeirri beiðni og því til svarað að EVL þyrftu að halda sig innan tiltekins ramma (2–4% eignarhlut) og að ekki stæði til að auka kaupin nema hægt væri að selja hlutina aftur.“

Þetta segir í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Frægu Imon-viðskiptin

Ennfremur segir:

„Um viðskipti á síðustu vikum tímabilsins hafði Ívar eftirfarandi að segja:

„Auðvitað voru þessi frægu Imon-viðskipti og eitthvað svona sko. Svo voru þarna einhver önnur viðskipti sem áttu sér stað þegar allt var hérna á suðupunkti þarna í lokin, mikil velta, en svo bara allt í einu poppar upp einhver gríðarlega sterk eftirspurn í gegnum miðlunina og það gefur strákunum [vísun í starfsmenn EVL] enn frekari ástæðu til að halda að það sé allt í lagi að vera aðeins á kauphliðinni, þeir finna að það er eftirspurn líka og það koma gríðarlega stórar pantanir.““

Hlutir seldir á lægra verði en þeir voru keyptir

Í rannsóknarskýrslunni segir að eðlilegar ástæður kunni að hafa verið að baki einhverjum hluta viðskiptanna. “..svo sem að EVL hefðu verið að anna eftirspurn fjárfesta eftir stærri viðskiptum. Kaup umfram sölu á tímabili lækkunarinnar eru aftur á móti svo mikil að erfitt er að gera sér í hugarlund að kaupáhuginn hafi verið slíkur að EVL hefðu allt að því þurft að einoka kauphlið tilboðabókarinnar. Því til viðbótar virðast hlutirnir í flestum tilvikum hafa verið seldir á lægra verði en þeir voru keyptir og tap þess vegna hlotist af viðskiptunum.“