Alþjóðasamtök flugfélaga (e. International Air Transport Association) telja að rekstrarhorfur fari versnandi og hafa samtökin lækkað spá sína um heildarhagnað iðnaðarins á næsta ári um tvo milljarða Bandaríkjadala. Þetta kemur fram í endurmati á rekstrarhorfum flugiðnaðarins á næsta ári, en matið var birt í byrjun vikunnar.

Spár samtakanna höfðu gert ráð fyrir 9,6 milljarða dala hagnaði á næsta ári en sökum hækkandi olíuverðs og hugsanlegra versnandi rekstrarskilyrða vegna núverandi ástands á fjármálamörkuðum er spáin lækkuð.

Fram kemur í spánni að ef fjármálaþurrðin á mörkuðum verði til þess að draga verulega úr hagnaði mikilvægra fjármálastofnana kunni rekstrarskilyrði flugfélaga heimsins að versna enn frekar, sérstaklega í Bandaríkjunum. En það er ekki síst bættur rekstur bandarískra flugfélaga sem hefur knúið fram bætta afkomu flugiðnaðarins í heiminum að undanförnu. Endurspeglast rekstrarbatinn meðal annars í því Alþjóðasamtök flugfélaga gera ráð fyrir að iðnaðurinn muni skila 5,6 milljarða dala hagnaði í ár og rætist sú spá er það í fyrsta sinn frá aldamótum sem slíkt gerist. Rekstur norður-amerískra flugfélaga stendur undir um helmingnum af þeim hagnaði.

Jafnframt því að spá versnandi rekstrarhorfum létu samtökin í ljós áhyggjur yfir ólíkri afstöðu Evrópusambandsins annarsvegar og annarra ríkisstjórna hinsvegar þegar kemur að verslun flugiðnaðarins með losunarheimildir. Samtökin telja að náist ekki samstaða meðal ríkisstjórna heims um samræmdar reglur kunni það að leiða til lagaóvissu og vandræðagangs sem komi engum til góðs. Aðildarríki Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (IACO) funda í Montreal í Kanada næstu tvær vikurnar með það að markmiði að koma sér saman um samræmdar reglur um viðskipti með losunarheimildir í flugiðnaði. Umhverfisverndarsamtök og hagsmunasamtök í samgönguiðnaði í Evrópu hafa sakað IACO um aðgerðaleysi í málaflokknum og segja að Evrópusamtökin verði að vera reiðubúin að setja sínar eigin reglur náist ekki samstaða á vettvangi IACO um samræmdar reglur. Breska blaðið Financial Times hefur eftir Giovanni Bisignani, framkvæmdastjóra Alþjóðasamtaka flugfélaga, að feikilega mikilvægt sé að samstaða náist um reglurnar og óvissa um framgang mála fyrir iðnað sem er að rétta úr kútnum eftir mörg mögur ár sé óþolandi.