Endurmenntun Háskóla Íslands býður upp á nýtt nám í markaðssamskiptum (e. intergrated marketing communication) og vörumerkjastjórnun (e. branding), í samstarfi við Samband íslenskra auglýsingastofa, SÍA.  Námið er 12 einingar á háskólastigi (24 ECTS) og nær yfir tvö misseri. Námið samanstendur af þremur námskeiðum og yfirgripsmiklu lokaverkefni, sem taka á öllum meginviðfangsefnum markaðssamskipta og vörumerkjastjórnunar.

Kennarar námsins hafa allir mikla reynslu af markaðsstörfum, sem markaðsstjórar og/eða markaðsráðgjafar, og af kennslu á háskólastigi. Umsjónarmenn námsins eru Kristján Geir Gunnarsson MBA, markaðsstjóri Nóa Siríus, Árni Árnason, MA í markaðssamskiptum, Hörður Harðarson Msc., markaðsstjóri hjá Ölgerðinni og Stefán Sveinn Gunnarsson Msc., MBA, forstöðumaður þjónustu hjá Tryggingarmiðstöðinni. Að auki koma að náminu fjölmargir gestafyrirlesarar víðs vegar að úr atvinnulífinu.

Sérhæft nám á háskólastigi í markaðssamskiptum hefur ekki staðið til boða hér á landi fyrr, en námið hentar vel markaðsstjórum í litlum og millistórum fyrirtækjum, sérfræðingum á markaðssviðum stærri fyrirtækja, starfsfólki auglýsingastofa og öðrum sem hafa reynslu af markaðsmálum en vilja styrkja þekkingargrunn sinn og færni á þessum sviðum.

Námið hefst í september 2008, en tekið er við umsóknum til 5. maí næstkomandi.