Staða markaðsskuldabréfa í lok febrúar 2010 nam 1.472 milljörðum króna og lækkuðu um 24,4 milljarða í mánuðinum. Í upphafi þessa árs, í janúar 2010, hafði staða markaðsverðbréfa hækkað um tæpa 12 milljarða á milli mánaða og nam þá um 1.497 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans en tölur frá desember 2008 til janúar 2010 hafa nú verið endurskoðaðar að sögn bankans. Staða markaðsskuldabréfa nam á sama tíma í fyrra rúmum 1.512 milljörðum króna og hefur staða þeirra þannig lækkað um tæpa 40 milljarða á milli ára.

Staða ríkisbréfa hækkar þó á milli mánaða um tæpa 23,5 milljarða króna en í lok febrúar nam staða þeirra 377,3 milljörðum króna, samanborið við 234 milljarða árið áður. Þannig hafa ríkisbréf hækkað um rúma 143 milljarða á milli ára, mest allra skuldabréfa.

Líkt og síðustu mánuði eru það skráð bréf atvinnufyrirtækja sem lækka mest á milli mánaða en í lok febrúar nam staða þeirra um 160 milljörðum króna og hafði þá lækkað um rúma 42 milljarða á milli mánaða. Á sama tíma í fyrra nam staða skráðra bréfa atvinnufyrirtækja tæpum 337 milljörðum króna og hefur virði þeirra því lækkað um rúma 176 milljarða á milli ára.

Þá lækkaði staða íbúðabréfa um 5,3 milljarða á milli mánaða í febrúar en staða þeirra var þá tæpir 704 milljarðar króna. Staða íbúðabréfa hefur þó hækkað um rétt rúma 50 milljarða á milli ára.

Markaðsvíxlar lækkuðu um tæpa 10,6 milljarða króna á milli mánaða í febrúar en staða þeirra var í lok mánaðarins tæpir 76,7 milljarðar króna. Þá hefur staða markaðsvíxla lækkað um 34,8 milljarða á milli ára. Þar munar mestu um banka og sparisjóðsvíxla sem hafa lækkað um 35,7 milljarða á milli ára á meðan ríkisvíxlar og eldri ríkisbréf hafa hækkað um tæpar 860 milljónir á milli ára þrátt fyrir að hafa lækkað um 8,9 milljarða á milli mánaða í febrúar á þessu ári.

Skráð hlutabréf hækka á milli ára

Skráð hlutabréf í Kauphöllinni hækkuðu þó um rúma 20 milljarða á milli mánaða í febrúar þegar staða þeirra nam um 219,7 milljörðum króna. Þá hafa skráð hlutabréf hækkað um tæpa 19 milljarða á milli ára. Til frekar upplýsinga þá hefur virði skráðra bréfa á aðallista Kauphallarinnar hækkað um tæpa 25 milljarða á milli ára á meðan virði bréfa á First North markaðnum hefur lækkað um 6 milljarða á milli ára.

Til gamans, ef gamans skyldi kalla, má taka fram að frá því í september 2008 hefur virði skráðra bréfa í Kauphöllinni lækkað um rúma 1.115  milljarða króna og frá því í júlí 2007, þegar gamla úrvalsvísitalan náði hámarki, hefur virði skráðra bréfa í Kauphöllinni lækkað um rúma 3.417 milljarða króna.