Gengi hlutabréfa tæknifyrirtækisins XG Technology Inc. hefur lækkað skarpt í kauphöllinni í London eftir töluverða hækkun í byrjun mánaðarins. Nú standa bréfin í 14,50 og hafa lækkað um 1,75% það sem af er degi. Munur á kaup- og sölutilboði er talsverður. Viðskipti eru sem fyrr stopul.

Fyrir skömmu var sagt frá því í Viðskiptablaðinu að bréf félagsins væru komin í 17,50. Markaðsvirði félagsins var þá nálægt 2,2 milljörðum Bandaríkjadala eða um 145 milljörðum króna. Íslenskir fjárfestar eiga um fimmtungshlut í félaginu.

Viðskiptablaðið greindi frá því að hækkunin yrði ekki rakin til nýrra frétta frá félaginu og sama má segja um lækkunina nú.

Ársuppgjör félagsins fyrir árið 2006 sýnir tap upp á 0,09 sent á hlut en það átti ríflega átta milljónir dala í sjóðum sínum um síðustu áramót. Fyrir skömmu var greint frá samningi XG Technology um notkun á fjarskiptatækni félagsins í Englandi og Mexíkó. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa átt sér stað viðræður um notkun búnaðarins í Austur-Evrópu.