Gengi hlutabréfa bresku matvöruverslunarkeðjunnar Sainsburys hefur hækkað um 1,7% það sem af er degi, en Marks & Spencer og fjárfestingasjóðurinn Delta Two frá Katar í Mið-Austurlöndum hafa áhuga á að gera kauptilboð í félagið.

Baugur hefur verið að byggja upp hlut í Sainsburys og talið er að hluturinn nemi um 2%, eins og Viðskiptablaðið greindi frá í janúar.

Kaup Baugs í félaginu stuðluðu að hækkun á gengi bréfanna, en getgátur voru um að Baugur og meðfjárfestar myndu gera tilraun til að kaupa Sainsburys. Vangaveltur eru nú um að Baugur gangi til liðs við Marks & Spencer og Delta Two.

Ef það reynist rangt og Marks & Spencer og Delta Two tekst að kaupa Sainsburys er líklegt að söluhagnaður Baugs verði verulegur, segja sérfræðingar.