Gengi hlutabréfa tæknifyrirtækisins XG Technology hefur hækkað um 6,44% í morgun í 15,7 Bandaríkjadali á hlut, samkvæmt upplýsingum frá kauphöllinni í London. Fyrirtækið er að hluta til í eigu íslenskra fjárfesta.

Talið er að frétta sé að vænta af félaginu og að það sé ástæðan fyrir hækkun á gengi bréfanna. XG Technology er skráð á AIM-markaðinn í London.

Íslenska félagið Stormur, sem skráð er í Svíþjóð, á um 20% hlut í XG Technology. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru íslensku fjárfestarnir sem standa að Stormi, Aðalsteinn Karlsson, Pálmi Sigmarsson, Gunnar Jóhann Birgisson, Þórarinn Kristinsson, Hjörtur Nielsen, Guðmundur Birgisson, Sigurður Hjálmarsson, og Eggert og Gunnar Gíslasynir.