Gert er ráð fyrir skráningu Avion Group í Kauphöllina í maí á næsta ári og hefur fyrirtækið líklega hag af því að verða skráð fyrr en seinna vegna hagstæðra markaðsaðstæðna núna. Avion Group gefur ekki upp hagnað félaganna sem mynda samstæðuna en miðað við þær tölur sem liggja fyrir má áætla að markaðsverðmæti félagsins gæti legið á bilinu 30 til 40 milljarðar íslenskra króna. Félagið yrði veltumesta félagið í Kauphöllinni ef að áætlanir þess standast en hagnaður þess yrði ekkert í líkingu við hagnaðarmestu félögin núna. Avion stefnir að 10 - 15% innri og ytri vexti á ári. Heildareignir í lok síðasta árs voru sjö milljarðar en nú hefur Excel Airways bæst við.

Avion Group tekur formlega til starfa þann 1. janúar 2005 og starfandi stjórnarformaður félagsins verður Magnús Þorsteinsson, aðaleigandi Atlanta. Avion Group mun samanstanda af Air Atlanta Icelandic, Air Atlanta Europe, Íslandsflugi, Excel Airways, Air Atlanta Aero Engineering, sem rekur flugskýli í Shannon á Írlandi, Avia Services, sem sinnir viðgerðum á varahlutum og Suðurflugi sem sinnir flugvélaafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli.

Velta félagsins verður um að minnsta kosti 72 milljarðar íslenskra króna, starfsmenn verða yfir þrjú þúsund talsins og fjöldi flugvéla verður 63. Sjá nánar í úttekt Viðskiptablaðsins í dag.