Markaðsvirði félaga í Kauphöll Íslands jókst um rúma 315 milljarða króna í janúar og nam heildarvirði þeirra 2.131 milljörðum í lok mánaðarins, segir í Efnahagsfréttum Kaupþings banka.

Þetta er mesta aukning markaðsvirðis í einum mánuði, frá upphafi, og er þetta annar mánuðurinn í röð sem slíkt gerist.

Janúar var veltumesti mánuðurinn í Kauphöllinni frá upphafi, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Heildarvelta hlutabréfa í Kauphöllinni jókst um 205,5 milljarða á milli mánaða og nam tæplega 3336,6 milljörðum króna í janúar.

Markaðsvirði Kaupþings banka hækkaði mest af skráðum félögum í Kauphöll Íslands í janúar, eða um 95,7 milljarða. Því næst hækkaði markaðsvirði Íslandsbanka um 47 milljarða og Straumur-Burðarás jók verðmæti sitt um 38,3 milljarða.

Markaðsvirði Avion Group lækkaði um 7,2 milljarða, markaðsvirði Össurar lækkaði næst mest eða um 3,5 milljarða og verðmæti Mosaic Fashions lækkaði um 3,2 milljarða.

Ef skoðað er hvaða félög hækkuðu hlutfallslega mest, hækkaði Atlantic Petroleum mest í janúar, eða um 63%. Straumur-Burðarás hækkaði næst mest, eða um 23,3%, Fiskmarkaður Íslands hækkaði um 22,2% og Kaupþing banki hækkaði um 19,3%.

Flaga Group lækkaði mest, eða um 13%, Avion Group hefur lækkað um 8,8% og Össur lækkaði um 7,9%.