Markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands jókst um 105,02 ma. kr. í janúar og nam 1.189 mö. kr. í lok mánaðarins. Með þessari hækkun varð heildar markaðsvirði félaganna í Kauphöllinni hærra en það hefur áður verið en fyrra metið var frá lokum september 2004 en þá var það 1.142 ma. kr. Hlutfallslega hækkaði markaðsvirði Flugleiða mest í janúar eða um 38%, úr 25 mö. kr. í 34,5 ma. kr. segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Annars voru það bankarnir sem stóðu á bak við mestan hlut hækkunarinnar og hækkaði KB banki mest eða um 38 ma. kr. Því næst kemur Íslandsbanki með aukningu upp á 28 ma. kr. og að lokum Landsbankinn með 17,8 ma. kr. Samtals hækkuðu bankarnir 3 um 83,8 ma. kr. eða því sem næst 80% af samanlagðri hækkun á markaðsvirði félaganna í Kauphöllinni í janúar. Var heildarmarkaðsvirði bankanna þriggja samtals 599,2 ma. kr. sem er 50,4% af heildarmarkaðsvirði allra skráðra félaga í Kauphöllinni.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.