Bandaríska tæknifyrirtækið XG Technology, sem er að hluta til í eigu Íslendinga, hefur verið skráð á AIM-hlutabréfamarkaðinn í London, segir í tilkynningu til The London Stock Exchange (LSE).


Markaðsvirði félagsins, sem sérhæfir sig í fjarskiptatækni, við skráningu er 544 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar rúmlega 38 milljörðum króna.


Íslenska eignarhaldsfélagið Stormur, sem skráð er í Svíþjóð, á um 20% hlut í félaginu. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru íslensku aðilarnir sem standa að Stormi,  Aðalsteinn Karlsson, Pálmi Sigmarsson, Gunnar Jóhann Birgisson, Þórarinn Kristinsson, Guðmundur Birgisson, Sigurður Hjálmarsson, og Eggert og Gunnar Gíslasynir.


Upphafleg fjárfesting Íslendinganna er talin vera um fimm milljónir Bandaríkjadala, en markaðsvirði núverandi hlutar er um 120 milljónir Bandríkjadala.


Ekki er verið að fleyta félaginu og selja hlutafé til annarra fjárfesta. Í tilkynningunni segir að áætlað sé að sækja fé til annarra fjárfesta og hafa aðilar lýst yfir áhuga að fjárfesta í félaginu fyrir 63 milljónir Bandaríkjadala. Fjárfestingin verður í formi verðbréfa með breytirétt í hlutafé ,segir í tilkynningunni.