Um mitt seinasta ár var markaðsvirði FL Group rúmar 234 milljarðar króna en er nú 101 milljarður króna og hefur því lækkað um 56,8% frá júnílokum. Frá útboðsgenginu í desember, 14,7, hefur gengið lækkað um helming.

Þegar Fons, eignarhaldsfélag í meirihlutaeigu Pálma Haraldssonar, keypti 6,87% hlut í FL Group 6. desember síðast liðinni fóru viðskiptin fram á genginu 16,1, og var markaðsvirði hlutarins um 10,2 milljarðar króna. Markaðsvirði sama hlutar í dag miðað við skráð gengi (gengið 7,28) myndi vera  um 4,6 milljarður króna.

Væri félagið afskráð úr kauphöll nú og tíu stærstu hluthafarnir myndu sitja um kyrr með þau tæpu 85% sem þeir eiga en kaupa út aðra hluthafa, þyrftu þeir að greiða um 15 milljarða króna fyrir, miðað við gengið nú.

Afskráning skoðuð frá í desember

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að í kjölfar hlutafjáraukningar FL Group í desember síðast liðnum hafi stærstu hluthafar félagsins kannað gaumgæfilega þann kost að taka félagið af markaði.

„Þetta er langskásti kosturinn,” sagði einn stjórnarmanna í FL Group þegar Viðskiptablaðið ræddi við hann seinni hlutann í febrúar síðast liðnum. Sagði hann þá afskráningu koma enn til greina en staðan væri sú að fjármunir lægju ekki á lausu. „Við útilokum hins vegar ekkert því þó að það kosti sitt að kaupa upp félagið er það ekki gífurlega mikið því að það er í eigu tiltölulega fárra aðila,” sagði heimildarmaður blaðsins á þeim tíma. Gengi hlutabréfa í FL Group hefur síðan lækkað úr um 10 í  7,46.

Annar stjórnarmaður sem rætt var við skömmu fyrir nýliðinn aðalfund staðfesti að möguleikinn á afskráningu hefði verið ræddur en niðurstaðan hefði verið sú að vegna lausafjárskorts á markaði væri ótímabært að velta vöngum yfir þeim möguleika frekar.

Lækkanir á gengi hlutabréfa í FL Group hafa hins vegar verið miklar og má benda á að þegar ákveðið var að ráðast í hlutafjáraukningu í félaginu í desember síðast liðnum var útboðsgengið ákveðið 14,7 á hlut. Kom það verð mjög illa við marga hluthafa og ræddu sumir um að verið væri að keyra verðmæti fyrirtækisins niður um fjórðung með einu pennastriki.

Nú er gengið hins vegar tæplega helmingi lægra en það var í desember. Virðast þær lækkanir sem orðið hafa síðan þá hafa kynt undir þá trú stærstu eigenda að heppilegast miðað við aðstæður væri að afskrá félagið, og að markaðsvirðið endurspeglaði ekki raunverulegt virði fyrirtækisins.