Markaðsvirði undirliggjandi eigna FL Group [ FL ], skráðra og óskráðra, er miklum mun hærra en markaðsvirði félagsins sjálfs, samkvæmt lauslegum útreikningum Viðskiptablaðsins.

Markaðsvirði FL Group í Kauphöllinni er 87,9 milljarðar króna, en ef markaðsvirði óskráðra og skráðra eigna í ársreikningi félagsins um áramót er uppfært miðað við nýjasta gengi kemur í ljós að það nemur líklega um 278 milljörðum króna.

Um áramót nam eigið fé félagsins 156 milljörðum króna og ef það er uppfært til dagsins í dag má lauslega áætla að það hafi lækkað um 40 milljarða króna og nemi því um 116 milljörðum.

Það þýðir að V/I hlutfall (P/B) - hlutfall markaðsvirðis af bókfærðu eigin fé - er vel undir 1. Það er reyndar ekki óalgengt, t.a.m. ef litið er til fjárfestingafélaga á Norðurlöndunum.

Hlutur í Finnair á 15 milljarða

32% hlutur félagsins í Glitni er 81 milljarðs króna virði og eign þess í öðrum skráðum eignum á Íslandi u.þ.b. 13 milljörðum króna, miðað við að það hafi lækkað um 17,5% frá áramótum líkt og Úrvalsvísitalan.

Hlutur félagsins í Inspired Gaming kostar nú 2 milljarða króna, Finnair 12 milljarða, Royal Unibrew 14 milljarða, Nordicom 5 milljarða og Commerzbank, sem reyndar er nú færður á veltubók, 17 milljarðar króna.

Óskráðar eignir FL Group um áramót námu 90 milljörðum króna og ef þær eru færðar niður sem nemur lækkun Úrvalsvísitölunnar frá þeim tíma eru þær nú 74 milljarðar.

Þá keypti félagið tryggingafélagið TM á síðasta ári og var yfirtökutilboðið 47 krónur á hlut, sem þýðir að kaupverðið var tæplega 50 milljarðar króna. Samtals gerir þetta um 278 milljarða króna.

Tekið skal fram að um lauslega útreikninga er að ræða og aðeins hægt að líta á þá sem vísbendingu um stöðu félagsins.

Afskráningarorðrómur í mars

Í lok mars var uppi orðrómur um að framtíð FL Group væri til skoðunar hjá forsvarsmönnum félagsins, en Viðskiptablaðið hafði þá eftir stjórnarmanni að eina vitið væri að taka félagið af markaði.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group, sendi frá sér tilkynningu í lok mars þar sem sagði að afskráning hefði ekki verið rædd á stjórnarfundi.