Markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands jókst um 31,1 ma.kr. í febrúar og nam 1.220 mö.kr. í lok mánaðarins eins og kemur fram í Hálffimm fréttum KB banka . "Hæst fór markaðasvirðið í 1.253,5 ma.kr. í mánuðinum, þann 18. febrúar, en það er það hæsta sem samanlagt markaðsvirði hlutabréfa í Kauphöllinni hefur farið í frá upphafi. Á þessum sama tíma var Úrvalsvísitalan í rúmlega 3.878 stigum og hafði því hækkað um 15,4% frá byrjun ársins. Síðan þá hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 3,5%, en hún stóð í 3.741,6 stigum í lok dagsins," segir í Hálffimm fréttum.

Þar kemur einnig fram að miðað við heildarmarkaðsvirði hlutabréfa í Kauphöllinni í lok febrúar nemur aukningin rúmlega 136 mö.kr. það sem af er ári. Stærsti hluti þeirrar aukningar má rekja til hækkunar á gengi KB banka, Landsbankans og Íslandsbanka en samtals hefur markaðsvirði bankanna þriggja aukist um 95,7 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins. "Rúmlega 19 ma.kr. af þeirri upphæð stafar þó af hlutafjáraukningu Íslandsbanka um miðjan janúar. Þar á eftir koma Flugleiðir og Burðarás, af þeim félögum sem hafa aukið mest við markaðsvirði sitt á árinu. Flugleiðir hafa aukið markaðsvirði sitt um 12,3 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins en gengi félagsins hefur hækkað um rúmlega 44% á árinu. Markaðsvirði Burðaráss hefur á sama tíma aukist um 8,9 milljarða króna," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Greiningardeild KB banka bendir á að ekki eru það mörg félögin sem hafa lækkað að markaðsvirði það sem af er ári. Þar má þó helst nefna TM sem hefur lækkað um rúmlega 800 m.kr. og Vinnslustöðin um rúmlega 600 milljónir. "Það má þó benda á að viðskipti með bæði þessi félög eru fremur fátíð og verðmyndun milli daga því oft á tíðum nokkuð sveiflukennd," segir í Hálffimm fréttum.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.