Hlutabréf Kaldbaks hækkuðu um tæp 4% í viðskiptum föstudagsins og var lokagengi dagsins 7,95. Markaðsvirði félagsins eftir þessa hækkun í dag er rétt tæplega1 4 ma.kr. sem er aukning innan dagsins um rúmar 500 m.kr. Fyrir hækkun dagsins reiknaðist Greiningardeild KB banka til að Q-hlutfall Kaldbaks, það er hlutfallið milli markaðsvirðis og eigin fjár, væri um það bil 1.19. Við lok annars ársfjórðungs var þetta hlutfall 1,24 og hafði því lækkað áður en bréfin hækkuðu í dag.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að félagið átti í lok annars ársfjórðungs m.a. 1,3% hlut í Landsbankanum, 2,9% hlut í Straumi og 0,4% hlut í bæði Íslandsbanka og Actavis. Auk þess sem félagið átti 18,2% í Samherja. Þessi félög ásamt Burðarás og Össuri eru þau félög sem hafa hækkað mest allra í Úrvalsvísitölunni það sem af er þriðja fjórðungi, þannig að óhætt er að segja að skráðu innlendu bréfin í eignasafni Kaldbaks hafi verið arðsöm undanfarnar vikur.

Eftir hækkun dagsins er Q-hlutfall Kaldbaks aftur komið á svipað ról, u.þ.b. 1,24, þannig að út frá þeirri kennitölu er verðlagning félagsins nú svipuð og við lok annars ársfjórðungs. Bréf Kaldbaks hafa hækkað um rúmlega 75% frá áramótum á meðan Úrvalvísitalan hefur hækkað um 67%. Hins vegar áætlar Greiningardeild KB banka að eigið fé sé núna u.þ.b. 11,2 ma.kr. og hafi því vaxið um rúmlega 30% á árinu. "Þar eru þó ekki reiknaðar inn duldar eignir félagsins, en þær felast í mismun á bókfærðu virði og markaðsvirði óskráðra eigna. Við aukna fjárfestingu í óskráðum félögum erlendis verður sífellt erfiðara að meta þær eftir því sem tíminn líður og í raun fæst endanlegt svar ekki fyrr en eignirnar verða aftur seldar eða skráðar á markað," segir í Hálffimm fréttum síðasta föstudag.