Heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni í nóvembermánuði námu tæpum 1.905 milljónum eða 91 milljónum á dag.  Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í októbermánuði rúmar 1.667 milljónir, eða 76 milljónir á dag.

Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Kauphallarinnar fyrir nóvember. Mest voru viðskipti með bréf Marels 1.476 milljónir og með bréf Össurar 321 milljónir.

Fram kemur að markaðsvirði skráðra félaga var 188 milljarðar í lok síðasta mánaðar og hækkaði um 4% á milli mánaða.  Markaðsvirði bréfa Össurar nam rúmum 59 milljörðum og er það félag stærst að markaðsvirði skráðra félaga. Næst í stærð er Marel en markaðsvirði þess nemur tæpum 38 milljörðum og bréf Føroya Banki en markaðsvirði þess er tæpir 33 milljarðar.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina 31% (12,3% á árinu), Saga Capital með 23,8% (16% á árinu) og Arion banki (áður Nýja Kaupþing) með 16,5% (28,7% á árinu).

Þá lækkaði OMXI6 úrvalsvísitalan um 4,1% á milli mánaða en af atvinnugreinavísitölum hækkaði vísitala nauðsynjavara (IX30PI) mest eða 43,4%.