Markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands fór í fyrsta sinn yfir 1.000 milljarða í ágúst. Á þetta er bent í ítarlegri samantekt greiningardeildar KB banka í Hálffimm fréttum sínum. Miklar hækkanar á stórum félögum auk hlutafjáraukningar KB banka urðu til þess að markaðsvirði skráðra félaga hækkaði um rúmlega 121 milljarð króna í ágústmánuði. Enn á ný voru það bankarnir sem leiddu hækkanirnar. Gengi Landsbankans hækkaði um tæp 19% en Íslandsbanki og KB banki hækkuðu báðir um tæp 9%. Samanlagt markaðsvirði stóru bankanna þriggja jókst því um tæplega 49 ma.kr. að frátaldri 40 ma.kr. hlutafjáraukningu KB banka.

Þar að auki hækkuðu bréf Actavis um 9,5% sem jók þar með markaðsvirði félagsins um tæpa 12,3 ma.kr og Burðarás hækkaði um rúmlega 9% sem samsvarar um 4,9 ma.kr. aukningu á markaðsvirði.

Í Hálffimm fréttum er bent á að þótt félögum haldi áfram að fækka í Kauphöllinni eykst markaðsvirði þeirra sem eftir standa jafnt og þétt. Um áramótin var markaðsvirði skráðra félaga rúmlega 658 ma.kr og hefur það því aukist um 54,5% það sem af er ári. Ef frá eru talin þau sjö félög sem hafa verið afskráð á árinu nemur aukningin um 58,3%. Samanlagt virði afskráðu félaganna var í ársbyrjun um 15,4 ma.kr. eða um 2,3% af heildarvirði markaðsins þannig að þessar afskráningar hafa ekki mikil áhrif á stærð markaðsins.

"Ef hins vegar er litið til fjöldra skráðra félaga kemur í ljós að þeim hefur fækkað úr 47 í 40 það sem af er ári og á þeim enn eftir að fækka. Fyrir liggur afskráning Afls, Síldarvinnslunnar og Sæplasts. Ekki er langt síðan að 75 félög voru skráð í Kauphöllinni en nú stefnir í að þau verði ekki fleiri en 37 í árslok og ljóst að fjárfestingamöguleikar almennings í íslensku atvinnulífi hafa dregist verulega saman á síðustu þremur árum," segir í Hálffimm fréttum KB banka.