Styrmir Guðmundsson, sjóðsstjóri MP sjóða, og Gísli Hauksson, framkvæmdarstjóri GAMMA, búast við að skuldabréfamarkaður verði sterkur áfram. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa, sérstaklega verðtryggðra, hefur lækkað mikið á síðustu vikum. „Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir geri ég ráð fyrir að markaður verði sterkur á næstu mánuðum. Það er gífurlega mikið af fé á innlánsmörkuðum sem bera nokkuð slæma vexti. Fjármunir eru hægt og bítandi að leka af innlánsreikningum og út á skuldabréfamarkaðinn,“ segir Gísli. Hann segir að eins og staðan er nú er eftirspurn meiri en framboð og raunar meiri en vænt framboð skuldabréfa. Þannig sé útgáfa íbúðabréfa neikvæð á árinu og ríkissjóður ekki gefið út mikið af bréfum á árinu.

Væntanlegar niðurstöður í vaxtakjörum gengistryggðra lána gæti þó aðeins hægt á markaði að nýju að mati Styrmis. „Ef gengisdómur færir einhvern skýrleika í fjármálakerfið og við vitum hvernig efnahagsreikningar bankanna líta út þá finnst mér líklegt að áhættuálag á bankakerfið muni minnka. Ef fólki fer að líða betur með innlán þá gæti það tekið vind úr skuldabréfamarkaði.

Þetta hafa verið geigvænlegar hækkanir síðustu vikur og sjaldan hafa sést svo miklar hækkanir af svo litlu tilefni. Það virðist vera mikið af fjármunum sem eru að leita í örugga ávöxtun. Áhrifin fara að verða þau að markaðurinn hefur lítið að bjóða fyrir þann sem kaupir til lengri tíma,“ segir Styrmir.