Áfram var heldur lítið um að vera á markaðinum í dag, aðeins 978 m.kr. velta með hlutabréf í Kauphöllinni í 164 viðskiptum. Til samanburðar hefur meðalvelta með hlutabréf verið um 2.750 m.kr. á dag það sem af er árinu, þar af 770 m.kr. í innanþingsviðskiptum eins og bent er á í Hálffimm fréttum KB banka. Meðalfjöldi viðskipta á sama tíma er um 360 viðskipti á dag, u.þ.b. 300 innanþingsviðskipti og 60 utanþingsviðskipti. Þar munar þó töluvert um þær hræringar sem voru á markaðinum um og eftir síðustu mánaðarmót, sem fjallað var í Hálffimm fréttum í gær.

Þetta tveggja vikna tímabil frá 25. október til 5. nóvember kemur til nokkurrar hækkunar á meðalveltu og meðalfjölda viðskipta. Á það sérstaklega við um innanþingsviðskipti sem voru með allra mesta móti á þessu tímabili.

Verðbreytingar á fjórða ársfjórðungi

Í Hálffimm fréttum er fullyrt að óhætt sé að segja að markaðurinn hafi skipt um gír um það leyti sem Úrvalsvísitalan tók að lækka í október. Kemur það helst fram í því að verð hlutabréf sem höfðu hækkað hvað mest á fyrstu 9 mánuðum árins hefur nú gengið einna mest til baka á fjórða ársfjórðungi. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar eru það SÍF, Nýherji og Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna sem hafa hækkað áberandi mest á þessum síðasta fjórðungi ársins. Bæði SÍF og Nýherji lækkuðu hinsvegar á fyrstu 9 mánuðum ársins, SÍF um 4,5% og Nýherji um 2,3%, á sama tíma og Úrvalsvísitalan hækkaði um 79,8%. SH hækkaði hins vegar um 30% á fyrstu 9 mánuðum ársins og hefur nú hækkað um 14,9% það sem af er fjórða ársfjórðungi.

Að sama skapi hafa þau félög sem hækkuðu hvað mest á fyrstu níu mánuðum ársins gefið einna mest eftir á fjórða ársfjórðungi. Dæmi um það eru Burðarás sem hækkaði um 70,2% á fyrstu níu mánuðum ársins, Kaldbakur (73,6%), Jarðboranir (93,5%), Landsbankinn (106,3) og Bakkavör (28,4%) en öll þessi félög eru á meðal þeirra 7 félaga sem hafa lækkað hvað mest á fjórða ársfjórðungi.