Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifar leiðara í fréttabréf samtakanna þar sem hann kemur á nýlega umræðu um launamun kynjana í tilefni ummæla rektors Viðskiptaháskólans á Bifröst. Þar segir hann Samtök atvinnulífsins hafa lagt sig eftir því að taka þátt í umræðum um jafnrétti, m.a. vegna þess að þau telja að það sé mikilvægt hagsmunamál atvinnulífsins eins og samfélags-ins alls, að konur og karlar eigi í reynd jafna möguleika til starfa, starfsþróunar og launa.

"Fyrirtæki þurfa að sjálfsögðu að taka þátt í að gera þá mynd að veruleika. SA hafa haldið því hagræna sjónarmiði mjög á lofti að fyrirtæki séu að sóa fjármunum ef þau mismuni starfsfólki í launum á grundvelli annars en hæfni og framlags. Ef karlar fá hærri laun en konur á ómálefnalegum forsendum minnkar hagnaðurinn. SA hafa líka tekið undir þau sjónarmið, sem studd hafa verið með rannsóknum, að það borgi sig fyrir fyrirtæki að að taka þátt í að eyða núningi á milli vinnu og annarra skuldbindinga starfsfólks, því þessi núningur veldur margvíslegum kostnaði," segir Ari og bætir við:

"Það má segja að meginstefið í málflutningi SA byggist á þeirri staðreynd að hinn almenni vinnumarkaðurinn er nákvæmlega það: MARKAÐUR. Önnur sjónarmið kunna að eiga við um opinber störf að ýmsu leyti. Það verður aldrei hægt með tölfræðilegum aðferðum að ná utan um allar aðstæður sem skipta máli við ákvörðun launa einstaklinga. Ekki frekar en að hægt er að skýra út nákvæmlega hvað ræður launamun tveggja manna í sama fótboltaliði. Samt blasir við að í ítarlegum rannsóknum skýrist stærstur hluti af meðaltals-launamun með mælanlegum þáttum, eins og menntun, starfsreynslu, starfsgreinaskiptingu, stöðu og vinnutíma. Sá launamunur sem eftir stendur skýrist fyrst og fremst af því að fjölskylduhagir, hjónaband, barneignir ofl., hafa önnur áhrif á laun kvenna en karla.

Verkefni þeirra sem vilja vinna að jafnrétti í reynd hlýtur því að vera að greina þá þætti sem hamla þátttöku kvenna á vinnumarkaðnum til jafns við karla. Þar er jöfnun fjölskyldu-ábyrgðar í algjöru lykilhlutverki, en einnig ýmis þjónusta við fjölskyldur, skipulag skólahalds o.fl. Fæðingarorlofið er stærra skref en auga mætir í því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum, einmitt að jafnaði á mjög þýðingarmiklu tímabili í upphafi starfsframa hvers og eins, þegar væntingar um stöður og laun mótast. Það er verkefni allra að halda áfram að endurskoða hefðir, venjur og viðhorf um allt þjóðfélagið. Ekki síst inni á heimilunum, en fyrirtækin, eigendur þeirra og stjórnendur, geta auðvitað ekki skorast undan heldur."

Ari bendir á að athyglisvert er að í danskri rannsókn kom fram að forgangsröðun kynjanna var mismunandi við starfsval. 50% kvenna flokkuðust sem öryggistýpur, skilgreint sem fólk sem leggur mest upp úr góðum vinnufélögum, að starfið falli vel að getu og hæfni og atvinnuöryggi. 30% flokkuðust sem framatýpur, sem leggja mest upp úr möguleika á stöðuhækkun með hærri launum og að starfið sé krefjandi. Að síðustu flokkuðust 20% sem launatýpur, sem leggja mest upp úr háum launum og hlunnindum í starfi. Karlarnir dreifðust hins vegar nokkuð jafnt á þessa flokka, þannig að þeir gefa háum launum almennt meira vægi en konur. Er það smánarblettur á atvinnulífinu?- spyr Ari.

"Það sýnist há umræðum um jafnréttismál hér á landi að margt áhugafólk um launajöfnuð kynjanna hefur tilhneigingu til að hafna tilvist markaðslögmála við launamyndun og virðist halda að einhverjir sem ?stjórni atvinnulífinu? geti bara ákveðið hvernig hlutirnir eigi að vera. Þetta fólk vill svo bara skamma ?markaðinn? fyrir að borga ekki sama verð fyrir mismunandi vöru eða þjónustu. Það getur aldrei orðið annað en barátta við vindmyllur sem engum árangri skilar," segir Ari.

Hann benti á að það var gjarnan sagt hér áður fyrr á tímum aðskilnaðarstefnu, að frjáls markaður væri besta lausnin. Markaðurinn spyrði ekki hvort bakarinn væri svartur eða hvítur, heldur um verð og gæði brauðsins. "Sama á auðvitað við um konur og karla, því markaðurinn er kynblindur, rétt eins og hann er litblindur. Við sjáum líka á Íslandi að með auknu frelsi og einkavæðingu bankanna hafa sprottið upp margir forystumenn stórumsvifa, sem ekki hefðu verið líklegir til að hljóta náð fyrir pólitískri stýringu sem veit betur en markaðurinn.

Menntunarval er stór þáttur í mismunandi skiptingu kynjanna milli atvinnugreina og konur virðast frekar búa sig undir störf hjá hinu opinbera. Þar er oft talað um vanmetin störf sem stórar ?kvennastéttir? gegna. Það væri óneitanlega gaman ef sá tónn myndi eflast í umræðunni að jafnréttissinnar krefðust einkavæðingar á þeirri þjónustustarfsemi sem hið opinbera ber ábyrgð á að veita og hvettu konur til að stofna fyrirtæki til að taka að sér þessa þjónustu og til að leita jafnréttis á eigin forsendum eftir farvegum markaðarins," segir Ari í leiðara sínum.