,,Það er mjög mikil vöntun á frystum síldarafurðum á mörkuðum og framboðið er í engu samræmi við eftirspurnina. Í raun má segja að markaðurinn hrópi á frysta síld. Birgðir eru engar og framleiðslan í sumar hefur verið miklu minni en undanfarin ár,“ segir Jón Helgason, sölustjóri uppsjávarfisks og svæðisstjóri fyrir Austur- Evrópu hjá HB Granda, í viðtali á heimasíðu fyrirtækisins.

Stefnt er að því að hefja frystingu á norsk-íslensku síldinni hjá HB Granda á Vopnafirði í byrjun september og síðan verður íslenska sumargotssíldin tekin til frystingar þegar veiðarnar hefjast og ástand síldarinnar gefur tilefni til þess.

,,Norsk-íslenska síldin, sem veiðst hefur í sumar, hefur verið svo feit að hún hefur ekki hentað til vinnslu og frystingar í landi enn sem komið er. Þeir sem eru með vinnsluskip hafa getað fryst síldina um borð og það er aðallega sjófrystingin sem séð hefur um framboðið í sumar. Norðmenn hafa fryst eitthvað í landi en framboðið þaðan virðist vera mun minna en mörg undanfarin ár,“ segir Jón, en að hans sögn er almenna reglan sú að ef fituprósentan er 18% eða hærri, henti síldin sjaldnast til frystingar í landi.

Helstu markaðir fyrir frystar síldarafurðir frá Íslandi eru í Rússlandi, Úkraínu og Póllandi en einnig hefur nokkuð magn verið selt til landa eins og Litháens og Vestur-Evrópulanda eins og Frakklands og Þýskalands. Jón segir verðið á afurðunum vera hátt um þessar mundir vegna vöntunar á mörkuðum og gengisþróun íslensku krónunnar sé framleiðendum hagstæð, en verðið geti hins vegar lækkað þegar framboðið eykst.