Sífellt fleiri fyrirtæki leita leiða til að koma til móts við starfsfólk sitt sem er með erlend lán.

Undanfarið hafa íslensk fyrirtæki sýnt vaxandi áhuga á því að greiða starfsfólki sínu laun í erlendum gjaldmiðli, að hluta til eða öllu leyti. Guðjón Karl Þórisson, sölustjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Applicon, segir ýmsar ástæður liggja þar að baki.Þó er aðalástæðan sú að fyrirtæki vilja koma til móts við starfsfólk sitt sem er með lán í erlendri mynt.

Applicon er hugbúnaðarfyrirtæki fyrir viðskiptalausnir og sinnir mörgum stærstu fyrirtækjum landsins. Launalausnir frá Applicon gera fyrirtækjum meðal annars kleift að greiða laun í evrum eða annarri mynt. Með hugbúnaðinum er hægt að velja þá mynt sem hentar starfsfólki í samræmi við stefnu fyrirtækja á þessu sviði, hvort sem það er að fá öll laun eða hluta þeirra greidd í annarri mynt en íslenskri krónu. Einnig er hægt að fá útborgað í mörgum gjaldmiðlum í einni og sömu útborguninni. „Það má segja að markaðurinn kalli eftir því að unnt sé að greiða laun í erlendum gjaldmiðlum.

Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á þessari lausn meðal okkar viðskiptavina, ekki síst stórra fyrirtækja. Eigum við von á að ýmsir komi til með að innleiða hana á næstunni,“ segir Guðjón. Fjölmargir einstaklingar fjármagna neyslu sína, s.s. húsnæðis- og bílakaup, með erlendum lánum.

Það er því áhugaverður kostur að geta fengið laun sín greidd í erlendum gjaldmiðli til að minnka gengisáhættuna og draga úr óvissu um hver mánaðamót. Guðjón segir að aukinn aðgangur að erlendu fjármagni hér á landi hafi kallað á breyttar þarfir í þessum málum. „Það er því afar ánægjulegt að geta boðið upp á þennan valkost fyrir viðskiptavini,“ segir Guðjón.