Segja má að næsta helgi sé fyrsta stóra jólaverslunarhelgin í Danmörku. Að sögn Jóns Björnssonar, framkvæmdastjóra Magasin du Nord, standa væntingar til þess að jólavertíðin verði ekki lakari nú en á síðasta ári en allt síðan í haust hefur verslun dregist verulega saman í Danmörku, rétt eins og nágranalöndunum, sagði Jón.

,,Þetta verður þungt, það er alveg ljóst. Markaðurinn hefur verið erfiður í allt haust og hefur verið litaður af afsláttar- og kynningatilboðum til að draga viðskiptavinina að. Við tökum auðvitað þátt í því,” sagði Jón. Hann sagði áberandi að fólk héldi betur utan um budduna. Hann sagðist þó ekki treysta sér til að segja til í prósentuvís hvaða breyting yrði á verslun. Hann sagðist vonast til þess að verslun yrði jafn mikil og í fyrra.

,,Við höfum átt vikur sem eru í mínus og vikur sem eru í plús á síðustumánuðum. Það er ómögulegt að segja hvernig þetta þróast.” Magasin lokar viðskiptaárinu í lok febrúar en Jón sagði það stefnu félagsins að gefa ekki upp rekstrartölur nema í lok viðskiptaárs. ,,Eftir fyrstu sex mánuðina vorum við aðeins betri en í fyrra. Þetta var erfitt en niðurstaðan var ágæt,” sagði Jón. Hann sagði að sérstaklega hefðu sumarmánuðirnir verið erfiðir enda veðrið verið gott, öfugt við rigningasumarið árið á undan.

Að sögn Jóns skiptir gríðarlega miklu fyrir rekstur félagsins að hafa náð að stilla það af  og koma upp innkaupakerfum félagsins sem er lykilkerfi þar sem unnt er að sjórna vöruflæðinu með því. Þannig eigi stjórnendur félagsins mun auðveldara með að meta hvernig haga beri pöntunum næsta árs. Þegar kemur að fatakaupum þarf yfirleitt að panta hálfu ári áður og sagði Jón að góð innkaupakerfi skiptu þar miklu. ,,Fyrir einu og hálfu ári vorum við ekki í stakk búnir til að gera þetta almennilega vegna þess að við höfðum ekki nægilegar upplýsingar. Við erum því vel búnir fyrir góðu tímanna en en betur fyrir erfiðu tímanna til að koma fyrirtækinu hratt í jafnvægi eftir breytingar í neyslu.” Jón sagði að ein viðbrögð við versnandi árferði hefðu verið að auglýsa meira.

Aðspurður um rekstrarhorfur sagði Jón að enn væri stefnt að því að klára árið með hagnaði.

Magasin rekur nú sex verslanir í Danmörku og þar af þrjár í Kaupmannahöfn. Hjá félaginu starfa 1200 manns. Það er félagið M-Holding sem á verslanirnar og á Baugur 75% hlut í félaginu á móti 25% hlut í eigu Birgis Þórs Bieltvelts.