Úrvalsvísitalan lækkaði um 13,9% í nóvembermánuði en á 15 ára tímabili hefur hún aldrei lækkað svo mikið í einum mánuði. Þar til nú hafði mesta lækkunin átt sér stað í október 2004 en þá nam lækkunin 11,5%. Á sama tíma veiktist krónan um 2,78% þrátt fyrir snarpa styrkingu í þessari viku. Þónokkur fylgni var milli gengis krónunnar og Úrvalsvísitölunnar í mánuðinum. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans í gær.

Í lok síðasta dags nóvember mánaðar endaði vísitalan í 6.984 stigum.

Krónan styrktist töluvert síðustu vikuna í nóvember eftir annars mikla veikingu frá því í byrjun mánaðarins. Gengisvísitalan stendur nú í 118,5 og jafngildir það 4,4% styrkingu frá lokagengi síðustu viku sem var 123,75. Ýmsar ástæður geta verið fyrir styrkingu krónunnar í vikunni en nokkuð hefur verið um jákvæðar fréttir af mörkuðum bæði hérlendis og að utan. Í verðbólguspá Kaupþings fyrir desember spáir greiningadeild bankans því að krónan muni veikjast, olíuverð hækka og íbúðaverð taki kipp.

Greiningadeild Kaupþings spáir 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs í desember. Gangi spáin eftir segir bankinn að tólf mánaða verðbólga muni mælast 5,8%. Verðbólgan var 5,2% í nóvember. Greiningadeild Kaupþings telur að hækkunin í mánuðinum muni helgast af hækkandi fasteigna- og eldsneytisverði. Þá er jafnframt gert ráð fyrir lítilsháttar hækkun á matvöru og ýmsum þjónustuliðum.

„Gengi krónunnar hefur gefið lítillega eftir á síðustu vikum í kjölfar þess óróa sem ríkt hefur bæði á mörkuðum hér heima og erlendis. Að mati Greiningardeildar er líklegt að krónan verði áfram talsvert frá sínu sterkasta gildi á árinu sem þá skilar sér að lokum út í verðlag til neytenda,” segir í verðbólguspá frá Kaupþing fyrir desember.

Verðbólgan gæti hjaðnað hraðar en gert var ráð fyrir þegar líða fer á næsta ár

Greiningadeild Kaupþings segir að í vaxtaákvörðun Seðlabankans muni togast á tvö sjónarmið. ,,Verðbólguþróun hefur verið afar slæm frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi sem eykur líkur á aðgerðum. Hinsvegar hafa orðið verulegar lækkanir á hlutabréfamörkuðum auk þess sem hærra verð á lánsfé í heiminum mun líklega kæla helstu markaði hér á landi og hægja þar með á umsvifum í hagkerfinu. Þetta gæti leitt til þess að verðbólgan hjaðni hraðar en áður var gert ráð fyrir,” segir í verðbólguspánni.

Meðal óvissuþátta er hinsvegar hvort búið verði að ganga frá kjarasamningum fyrir 20. desember. Seðlabankinn hefur gefið til kynna að frekari vaxtahækkana megi vænta fari svo að niðurstaða kjarasamninga leiði til óhóflegra launahækkana.

Engin merki um stöðnun á íbúðamarkaði

Tólf mánaða verðhækkun fasteigna nemur 17% samkvæmt tölum frá Fasteignarmati ríkisins og hefur hækkað ört síðustu vikur. Á síðustu þremur mánuðum hefur fasteignaverð á landinu öllu hækkað að meðaltali um 1,5% milli mánaða og vegur þar þyngst hækkunin í október. Í mælingum Hagstofunnar er tekið mið af þróun íbúðaverðs síðustu þrjá mánuði og af þeim sökum má ætla að húsnæðisliðurinn muni áfram vega þungt í næstu tveimur mælingum Hagstofunnar. Í upphafi árs 2008 gerir Greiningardeild Kaupþings ráð fyrir að áhrif hækkandi vaxtakjara og erfiðara aðgengis að lánsfé verði sjáanleg á íbúðamarkaði sem mun skila sér í hægari hækkun fasteignaverðs og jafnvel lækkun á ákveðnum tímapunkti.

Verðbólgan hækkar næstu þrjá mánuði

Greiningardeild Kaupþings spáir því að verðbólgan hækki um 1,1% á næstu þremur mánuðum sem m.a. helgast af verðhækkun mjólkurafurða í upphafi árs, frekari hækkun eldsneytis og áhrif hækkandi húsnæðisliðar. Er líður á næsta ár er hins vegar gert ráð fyrir að hratt dragi úr verðbólguhraðanum, samhliða því sem hægir á umsvifum í hagkerfinu og að tólf mánaða hækkun verðbólgu endi í kringum verðbólgumarkmið í lok árs 2008.

Auknar tekjur ríkissjóðs

Góð afkoma ríkissjóðs það sem af er ári endurspeglar meiri gang í hagkerfinu en flestir höfðu búist við eftir mikla þenslu árin á undan. Í vefriti fjármálaráðuneytisins er greint frá greiðsluafkomu ríkissjóðs á fyrstu 10 mánuðum ársins. Nam handbært fé frá rekstri um 51,2 mö.kr. og er það um 2,4 ma.kr. aukning frá sama tíma fyrra árs. Hreinn lánsfjárjöfnuður er neikvæður um 11,9 ma.kr. og er það um 58,6 mö.kr. lakari útkoma en á sama tíma í fyrra, fyrst og fremst vegna óreglulegra liða á borð við kaup ríkisins á hlut sveitarfélaga í Landsvirkjun og aukningu eigin fjár Seðlabankans. Þetta kemur fram í morgunkorni Glitnis í gær.

Innheimtar tekjur námu 354 mö.kr. sem er um 13% aukning, sé horft framhjá óreglulegum tekjum. Athyglisvert er að sjá hversu mikið tekjuskattur einstaklinga eykst, eða um 8,1%, en það er í takti við þróun launavísitölu undanfarið. Þá jókst fjármagnstekjuskattur um 48,5%, en saman gefa þessir liðir ágæta mynd af þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna. Í ljósi aukningar tekjuskatts kemur ekki á óvart að töluverð aukning er í tekjum af almennum veltusköttum, eða um 8,3% að nafnvirði. Tekjuskattur lögaðila jókst einnig umtalsvert frá sama tíma fyrra árs, eða um 40,3%. Greidd gjöld ríkissjóðs námu um 296 mö.kr. sem er aukning um 14,3% frá sama tímabili í fyrra. Þar munar hvað mest um 18% aukningu til almannatrygginga og velferðarmála.

Skattalækkunum frestað?

Að sögn fréttaveitunnar Bloomberg gaf Geir H. Haarde forsætisráðherra til kynna í viðtali að hugsanlega yrði áformum um skattalækkanir frestað um óákveðin tíma. Fram kom í máli forsætisráðherra að hann teldi tímasetningar skattalækkana vera afar mikilvægar og taka þyrfti mið af því sem væri að gerast í hagkerfinu þá stundina.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí kemur fram að stefnt sé að frekari lækkun tekjuskatts einstaklinga og fyrirtækja á yfirstandandi kjörtímabili. Hins vegar eru þær ekki tímasetta nákvæmlega. Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Geir að það sé „einhver misskilningur að einhverju hafi verið frestað“, og segir nægan tíma til stefnu enda þrjú og hálft ár eftir af kjörtímabilinu. Ennfremur er haft eftir Geir að stjórnvöld séu nýkomin út úr fjögurra ára skattalækkunaráætlun sem endað hefði 1. mars og því sé „ekkert skrýtið þó menn kasti aðeins mæðinni í þessum efnum“.

Alþjóðleg matsfyrirtæki og stofnanir hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir rangar tímasetningar skattalækkana og skammsýna stefnu í ríkisfjármálum. Í síðustu viku breytti Standard & Poor's horfum fyrir lánshæfi ríkissjóðs í neikvæðum úr stöðugum vegna viðvarandi áhyggna af ójafnvægi í hagkerfinu.