Inga Hlín Pálsdóttir hefur verið forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu frá því að stofan var sett á laggirnar árið 2010. Þar áður starfaði Inga hjá Útflutningsráði Íslands, en hún er með BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og meistaragráðu í alþjóðamarkaðssetningu frá University of Strathclyde í Skotlandi. Þar lagði hún einmitt sérstaka áherslu á ímynd og mörkun landa og hefur því fengið tækifæri til að nýta þá sérhæfingu í starfi. Íslandsstofa er samstarfsvettvangur atvinnulífsins og stjórnvalda um kynningu á Íslandi erlendis og starfar á sviði útflutnings, ferðaþjónustu, beinnar erlendrar fjárfestingar og menningar. Sem forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hefur Inga haft yfirumsjón með vinsælum herferðum á borð við „Ask Guðmundur“ og nú síðast „Iceland Academy“ undir merkjum „Inspired by Iceland“. Íslandsstofa var á dögunum valin Markaðsfyrirtæki ársins 2016 af ÍMARK vegna vel heppnaðra starfa í tengslum við markaðssetningu á Íslandi.

Hvernig myndir þú lýsa þínu starfi og starfssviði innan Íslandsstofu?

„Á sviðinu starfar frábær og öflugur 10 manna hópur sem kemur að mjög fjölbreyttri vinnu, en meginmarkmiðið er að koma Íslandi sem áfangastað á framfæri. Við vinnum einnig með nokkrum almannatengslaskrifstofum erlendis og Íslensku auglýsingastofunni hér heima. Við höfum í samstarfi við ferðaþjónustuna sett fram ákveðnar grunnstoðir í markaðssetningunni, við höfum t.d. skilgreint markmiðin, greint markhópinn og markaðssvæðin og sett fram helstu skilaboð og áherslur sem við viljum að komi fram um Ísland. Allt okkar starf er undir merkjum „Inspired by Iceland“. Meðal þess sem við gerum er að byggja upp viðskiptatengsl með því að skipuleggja þátttöku íslenskra fyrirtækja á ferðasýningum, við förum á níu ferðasýningar á þessu ári þar sem við t.a.m. myndum tengsl við fyrirtækin á erlendum mörkuðum, ræðum við fjölmiðla og fleira. Við skipuleggjum líka viðskiptasendinefndir og förum til 28 borga á þessu ári með íslenskum fyrirtækjum þar sem yfir 1.000 erlendir söluaðilar mæta. Síðan erum við með markaðsherferðir á borð við „Iceland Academy“ og „Ask Guðmundur“ sem er beint að ferðamanninum og markhópnum sjálfum. Þetta er allt unnið í miklu samstarfi við hagsmunaaðila og ferðaþjónustufyrirtækin og við erum í sífelldri endurskoðun á þeim áherslum sem við vinnum eftir. Helstu markmiðin eru að jafna árstíðasveifluna, fá fólk til að ferðast víðar um landið, dvelja hér lengur og eyða meiru. Við þurfum líka að huga að því að ferðamaðurinn fari héðan ánægður, því annars er hætta á að orðsporið fari niður á við. Við treystum á að ferðamaðurinn sjálfur taki líka þátt í markaðsherferðunum og sé duglegur að miðla sinni reynslu á samfélagsmiðlum, að hann sé í raun talsmaður okkar út á við líkt og við erum sjálf.“

Með tekjur yfir meðallagi og vel menntaður

Hver myndirðu segja að væri markhópurinn?

„Við höfum skilgreint markhópinn sem „hinn upplýsta ferðamann“. Hinn upplýsti ferðamaður er m.a. með tekjur yfir meðallagi, vel menntaður, hefur áhuga á menningu, lífsstíl og afþreyingu og því að fara á fjarlægar slóðir. Þessi ferðamað- ur er líka tilbúinn að ferðast að vetri til og deila sögunum sínum. Við erum búin að vinna með þennan markhóp í nokkur ár en erum í augnablikinu að vinna ítarlegri markhópagreiningar á sjö markaðssvæðum í samstarfi við Háskólann á Bifröst og Rannsóknamiðstöð ferðamála. Sú greining kemur út í mars og mun nýtast ferðaþjónustufyrirtækjum mjög vel í sinni stefnumörkun. Kannski munu þarna opnast einhver ný tækifæri sem við vissum ekki af.“

Viðtalið má sjá í fullri lengd í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.