Attentus – mannauður og ráðgjöf er ráðgjafafyrirtæki sem veitir þjónustu á sviði reksturs út frá áherslum mannauðsstjórnunar. Fyrirtækið fagnaði tíu ára afmæli í ár, en það var stofnað árið 2007 af Árnýju Elíasdóttur, Ingu Björgu Hjaltadóttur og Ingunni Björk Vilhjálmsdóttur. Í dag eru eigendur auk stofnenda Guðríður Sigurðardóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir. Allir eigendur fyrirtækisins starfa sem ráðgjafar hjá Attentus. Starfsmenn fyrirtækisins eru ellefu talsins, þar af níu konur, en ráðgjafar Attentus hafa allir unnið við stjórnun í íslenskum fyrirtækjum.

„Upphaf Attentus má rekja til þess að stofnendur höfðu allar unnið saman að mannauðsmálum hjá Eimskip og öðlast þar mikla og góða reynslu. Við sáum þörf á íslenskum vinnumarkaði fyrir heildstæða mannauðsráðgjöf – að geta veitt þjónustu á öllum sviðum mannauðsmála, en við erum allar með ólíka menntun og reynslu á þessu sviði. Þannig byrjaði þetta allt saman,“ segir Árný Elíasdóttir.

Vilja sjá fleiri konur í forsvari

Árný segir Attentus vilja sjá fleiri konur í forsvari fyrir fyrirtæki og stofnanir í landinu.

„Konum í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum á Íslandi en við viljum sjá fleiri konur vera í forsvari fyrir fyrirtæki og stofnanir. Þess ber að nefna að Félag kvenna í atvinnulífinu er mikilvægur vettvangur og mikilvægt tengslanet kvenna í íslensku atvinnulífi. Okkur til mikillar ánægju sjáum við nú margar konur með árangursríkan eigin rekstur,“ segir Árný.

Þá segir Árný jafnlaunavottunina vera mikilvægt tæki fyrir fyrirtæki til að kanna hvort launamunur sé til staðar eða ekki. Þá sé kynjakvóti einnig mikilvægt tæki til að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja.

„Kannanir sem gerðar hafa verið undanfarin ár hafa sýnt fram á kynbundinn launamun. Jafnlaunavottun og undirbúningur hennar er mikilvægt tæki fyrir fyrirtækin til að skoða með markvissum og gagnsæjum hætti hvort launamunur er til staðar eða ekki. Í þessari vinnu er meðal annars gerð launagreining og störfin flokkuð út frá ákveðnum þáttum, svo sem ábyrgð og hæfni, sem gefur skýrari viðmið um launasetningu.

Varðandi kynjakvóta vorum við í fyrstu frekar mótfallnar honum. Okkur fannst það of mikið inngrip af hálfu stjórnvalda. En þegar við sáum að lítið þokaðist í til dæmis að fjölga konum í stjórnum og ráðum gerðum við okkur grein fyrir að hans væri þörf. En þrátt fyrir kvótann sjáum við því miður að það er ekki alltaf tekið tillit til hans og markmið laganna hefur ekki náðst.“

Nánar er fjallað um Attentus í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .